Fara í efni

Baskasetur Íslands opnað

Fréttir Náttúrulega Vestfirðir Græn skref Áfangastaðaáætlun Vestfjarða Markaðsstofa Vestfjarða Aðdráttarafl vestfirskra þorpa Uppbyggingasjóður Vestfjarða Áfram Árneshreppur! Vestfirðir 2035 Sóknaráætlun Vestfjarða Vestfjarðaleiðin Umhverfisvottun Vestfjarða Heilsársferðaþjónusta Sterkar Strandir
Héðinn Ásbjörnsson ávarpar gesti við opnun Baskaseturs. 
Ljósmynd: Hjálmtýr Heiðdal
Héðinn Ásbjörnsson ávarpar gesti við opnun Baskaseturs. Ljósmynd: Hjálmtýr Heiðdal

Baskasetur Íslands var opnað með formlegum hætti í Djúpavík þann 20. september síðastliðinn. Sú dagsetning er ekki tilviljun því það var einmitt þann dag, 20. september árið 1615 sem þrjú basknesk skip, sem höfðu verið hér við hvalveiðar, fórust í Reykjarfirði á Ströndum. Rúmlega 80 skipbrotsmenn komust í land, en þá tóku við einhverjir skelfilegustu atburðir Íslandssögunnar, er þeir voru eltir uppi og drepnir hvar sem til þeirra náðist undir stjórn sýslumannsins Ara í Ögri.

Talsverður fjöldi var við opnun Baskasetursins, m.a. sendiherra Frakklands og fulltrúi sendiherra Spánar, fulltrúa samstarfsaðila verkefnisins, Háskólasetri Vestfjarða, Baskavinafélaginu og Albaola skipasmíðasafninu, en það var fyrrverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sem opnaði sýninguna formlega. Í opnunarræðu sinni hvatti hann til forvitni og að vera opinn fyrir nýjungum. Fáfræði og ótti við hið óþekkta hefðu verið það sem fyrst og fremst olli þessum ódæðisverkum á sínum tíma og við yrðum að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Þetta sé raunveruleg hætta enn þann dag í dag.

Í einum af gömlu síldartönkunum í Djúpavík hefur verið opnuð vegleg sýning um veru Baska hér við land, hvalveiðar þeirra og samskipti Íslendinga og Baska. Þar má m.a. sjá eftirlíkingu í fullri stærð af léttabát eða „txalupa“ sem siglt var á í land úr skipunum sem liggja á botni Reykjarfjarðar. Þessir bátar voru notaðir til að róa að hvalnum og skutla hann og er lag bátsins hugsað til að hann sé sem hljóðlátastur og trufli þannig hvalinn sem minnst. Skipasmiðir frá Albaola í í Pasaia hafa unnið ásamt íslenskum skipasmiðum, m.a. frá Báta- og hlunnindasafninu á Reykhólum að smíði bátsins. Á þremur slíkum bátum reru basknesku sjómennirnir norður fyrir Horn og yfir í Ísafjarðardjúp, þaðan í Dýrafjörð og loks á Patreksfjörð, en slík för verður að teljast þrekvirki.

Upprunalega hugmyndin að verkefninu kom fram í átakinu Áfram Árneshreppur, að stofna Baskasetur á Djúpavík þar sem hægt væri að fræðast um tengsl Baska og Íslendinga. Hótel Djúpavík með Héðin Ásbjörnsson í broddi fylkingar hefur um árabil haft umsjón með gömlu síldarverksmiðjunni og sinnt viðgerðum á verksmiðjunni og tönkunum. Baskavinafélagið fór í samstarf við Hótel Djúpavík og fékk til liðs við sig Þórarin Blöndal myndlistarmann og sýningahönnuð til að hafa yfirumsjón með hönnun sýningarinnar. Formaður Baskavinafélagsins er Ólafur J. Engilbertsson. Verkefnið hefur hlotið margvíslega styrki, m.a. frá Áfram Árneshreppi, úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða, Byggðaáætlun, Örvari hjá Menningarráðuneytinu og úr Evrópusjóðnum Creative Europe.

Baskasetur hefur lagt ríka áherslu á samstarf íslensks og basknesks lista- og fræðafólks. Því er ætlað að verða miðstöð skapandi sjálfbærni með sérstakri athygli á heilbrigði sjávar.