Fara í efni

Áfram ægifagri Árneshreppur

Fréttir

Starfsfólk Vestfjarðastofu lagði leið sína í Árneshrepp í vikunni til að taka þátt í íbúafundi sem haldinn var á vegum verkefnisstjórnar Áfram Árneshrepps sem skipuð er fulltrúum Byggðastofnunar, Vestfjarðastofu og sveitarfélagsins. Verkefnið er undir hatti Brothættra byggða hjá Byggðastofnun og eru slík verkefni ávallt unnin í samvinnu við landshlutasamtökin. Áfram Árneshreppur hefur verið starfrækt í á sjöunda ár, en nú hillir undir lokin sem verða um áramót.


Vel var mætt á fundinn og eru hér fundargestir ásamt verkefnisstjórn. Mynd: KÞH

Á fundinum var farið yfir stóru mynd þess hvernig til hefur tekist. Þær merku framkvæmdir sem hafa átt sér stað á tíma verkefnisins eru lagning þriggja fasa rafmagns og ljósleiðara, sem er nú langt komið. Það var hugur í heimafólki en óneitanlega setti svip sinn á fundinn það reiðarslag sem varð við birtingu á drögum að samgönguáætlun fyrr í sumar er í ljós kom að búið væri að fresta vegbótum á Veiðileysuhálsi aftur til ársins 2029. Það þótti skjóta skökku við þann metnað sem lagður hefur verið í verkefnið að samgöngumálin væru sett út í kuldann, en margir íbúar Árneshrepps búa við vegakerfi sem lítt þekkist í hinum vestræna heimi á tuttugustu og fyrstu öldinni. Það hefur þó bragabót verið gerð á vetrarþjónustu vegagerðarinnar í hreppinn þar sem síðastliðna tvo vetur hefur verið hægt að aka þangað að vetrarlagi. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni, þó það megi líka álíta það sjálfsagða þjónustu við svæði í byggð.


Verkefnisstjórn Áfram Árneshrepps, ásamt verkefnisstjóra. Mynd: KÞH

Ferðin var yndisleg í alla staði. Veðurguðirnir léku við hvern sinn fingur við komu starfsfólksins í Árneshrepp og eins og flestir vita er fegurðin þar slík að fátt annað er hægt fyrir gesti en leyfa sér þann munað að gjörsamlega falla í stafi, draga djúpt andann og meðtaka það sem fyrir augu ber. En svo þegar því lýkur og líkamlegar þarfir líkt og hungur láta á sér kræla þá er nú ekki amalegt að geta farið í Kaffi Norðurfjörð þar sem veitingarnar eru á heimsmælikvarða. Landsbyggðinni hefur stundum legið það á hálsi að þar sé ekkert að eta nema ólseigir vegasjoppuborgarar og þó við vitum að það sé nú ekki alveg satt þá fær Kaffi Norðurfjörður sérstakt hrós fyrir einstaklega metnaðarfulla matseld.


Bakaði brie osturinn í Kaffi Norðurfirði rann ljúft niður 

Tækifærið var líka notað til að taka hús á Pétri Guðmundssyni í Ófeigsfirði þar sem vegurinn endar. Hann tók á móti hópnum af miklum rausnarskap og uppfræddi um lífið í Ófeigsfirði, skektuna Mjóna sem hefur nú fengið stað í uppgerðu útihúsi, fyrirhugaða heimavirkjun í Húsá, æðardúns- og rekaviðarvinnslu, svo dæmi séu tekin. Boðið var upp á vel kæstan hákarl sem án vafa hefur hrakið alla óværu úr mannskapnum.

Það er einbeittur vilji heimafólks að halda áfram að byggja ofan á þá góðu vinnu sem unnin hefur verið undir merkjum Áfram Árneshrepps. Til að auka á slagkraftinn svo allir geti heyrt mega sendiherrar svæðisins um víða veröld láta í sér heyra til að tryggja að þetta mæta landsvæði fái áfram að blómstra.


Pétur í Ófeigsfirði tók vel á móti gestum og bauð upp á vel kæstan hákarl