Fara í efni

78 umsóknir bárust í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða

Umsóknarfrestur til að skila inn umsóknum í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða rann út 2. nóvember. Alls bárust 78 umsóknir, sem er nokkru færra en í meðalári, 48 umsóknir til menningarverkefna, 4 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki og 26 til atvinnuþróunar- og nýsköpunarverkefna. Alls var sótt um 117,8 milljónir króna, en heildarkostnaður verkefna er rúmlega 415 milljónir króna.

Nú eru fagráð menningar og nýsköpunar að fara yfir umsóknirnar. Þær leggja til hvaða umsóknir eigi að hljóta styrk og skila tillögu um það til úthlutunarnefndar, sem ákvarðar síðan hvaða upphæð komi í hlut hvers verkefnis.

Á meðan opið var fyrir umsóknir var á Facebook-síðu okkar fjallað um nokkur þeirra verkefna sem hlutu styrki í síðustu úthlutun. Nú hafa umfjallanirnar verið teknar saman í vefblað og bætt við efni er varðar Uppbyggingarsjóð Vestfjarða. Við bjóðum ykkur að skoða þetta ágæta blað hér.

Úthlutunarathöfn vegna styrkveitinga fyrir árið 2024 verður haldin fimmtudaginn 7. desember kl. 16:00. Athöfnin fer fram rafrænt, en boðið upp á sameiginlegt áhorf á Ísafirði, Patreksfirði og Hólmavík. 

Uppbyggingarsjóður er hluti af Sóknaráætlun Vestfjarða, sem er í gildi 2020-2024.