Vinnustofur fyrir umsækjendur í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða verða haldnar á starfsstöðvum Vestfjarða 7. og 8. október n.k.. Býðst þeim sem hafa áhuga á að senda umsókn í sjóðinn eða eru að vinna í umsóknum kostur á að mæta og fá ráðgjöf frá starfsfólki Vestfjarðastofu.
Patreksfjörður – þriðjudaginn 7. október
Hólmavík – miðvikudaginn 8. október
Ísafirði – miðvikudaginn 8. október
Jafnframt geta umsækjendur bókað tíma hjá ráðgjöfum Vestfjarðastofu.
Uppbyggingarsjóður Vestfjarða stendur opinn til hádegis þann 22. október. Sjóðurinn styrkir nýsköpun, uppbyggingu atvinnulífs og menningarstarf á Vestfjörðum. Umsóknartímabilið nú er vegna verkefna sem eiga að koma til framkvæmda árið 2026.
Umsóknir þurfa að falla að markmiðum og áherslum gildandi Sóknaráætlunar Vestfjarða 2025-2029. Við styrkúthlutun er litið til verkefna sem efla listir, menningu, nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu og stuðla að fjölgun atvinnutækifæra. Þá er horft til verkefna sem snúa að vöruþróun og gæðum hönnunar, auka fagmennsku á sviði lista og menningar, styðja við uppbyggingu og eflingu menningartengdrar ferðaþjónustu og eru gjaldeyrisskapandi. Að þessu sinni er áhersla lögð á verkefni sem á breiðum grunni geta eflt vetrarferðaþjónustu á Vestfjörðum.