Kría – sprota- og nýsköpunarsjóður auglýsir eftir umsóknum um fjárfestingu í sérhæfðum sjóðum sem hafa þann tilgang að fjárfesta í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Umsóknarfrestur er til og með 28. apríl 2023.
Hlutverk Kríu er að stuðla að uppbyggingu og framþróun fjármögnunarumhverfis sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi með því að fjárfesta í sérhæfðum fjárfestingarsjóðum, svokölluðum vísisjóðum (e. venture capital funds), sem sjálfir fjárfesta í nýskapandi sprotafyrirtækjum. Þeir sjóðir sem Kría fjárfestir í þurfa að uppfylla ákveðin skilyrði, en meginatriðið er að þeir leggi áherslu á fjárfestingar í sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjármögnunar. Kría er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Sjóðurinn starfar skv. lögum um Kríu – sprota og nýsköpunarsjóð.
Heildarfjárhæð sem Kría hefur til fjárfestinga á þessu umsóknartímabili er allt að 1 milljarður króna. Að hámarki getur eignarhlutur Kríu í hverjum sjóði verið 30% af heildarfjármagnsframlagi og óinnheimtu stofnfé viðkomandi sjóðs en aldrei numið hærri fjárhæð en 2 milljörðum króna.