Fara í efni

Umsóknarfrestur - Flutningsjöfnunarstyrkur

Smelltu hér til að sækja um flutningsjöfnunarstyrk - umsóknarfrestur er út 31. mars 2024

Smelltu hér til að sækja excel hjálparskjal fyrir umsóknir árið 2024 vegna flutnings á árinu 2023

ATHUGIÐ - Lagabreytingar hafa tekið gildi milli úthlutana ársins 2023 og 2024

Alþingi samþykkti þann 15. desember 2023 breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun. Tvennt hefur nú breyst, styrkhæft hlutfall á svæðum 1 og 2 ásamt því að umsóknir undir ákveðinni fjárhæð verða ekki skertar.

Breyting á endurgreiðsluhlutföllum
Hingað til hafa framleiðendur á svæði 1 getað sótt um 10% endurgreiðslu á flutningskostnaði vöru ef lengd ferðar er a.m.k. 150 km. Það sama hefur átt við um framleiðendur á svæði 2 en því til viðbótar gátu þeir sótt um 20% endurgreiðslu ef lengd ferðar er yfir 390 km. Nú hefur orðið sú breyting á framleiðendur á svæði 1 geta sótt um 10% styrk ef lengd ferðar er 150-390 km en 15% ef lengd ferðar er yfir 390 km. Þá geta framleiðendur á svæði 2 nú sótt um 20% styrk ef lengd ferðar er 150-390 km en 30% ef lengd ferðar er yfir 390 km. Búið er að taka tillit til þessara breytinga í nýju hjálparskjali fyrir 2024.

Breyting á skerðingarreglum
Hingað til hafa allar umsóknir verið skertar hlutfallslega jafn mikið ef samþykktur styrkur er hærri en heildarfjárveiting ársins. Alþingi hefur nú gert þá breytingu að ekki megi lækka styrk fyrir þær umsóknir sem eru undir 1,25% af fjárveitingu ársins og ekki megi heldur lækka samþykktar umsóknir niður fyrir 1,25% af fjárveitingu ársins.

Í ljósi þessara breytinga eru gömul hjálparskjöl úrelt og verður að notast við nýtt hjálparskjal 2024 sem sækja má hér. Eingöngu er búið að breyta útreikningi og bæta smá aðstoð við nýja hjálparskjalið en útlit er eins og árið 2023.


Markmið laga nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun, er að styðja við framleiðsluiðnað og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með því að jafna flutningskostnað framleiðenda sem eru með framleiðslu og lögheimili fjarri innanlandsmarkaði eða útflutningshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar en framleiðendur staðsettir nær markaði.

Um hvern gilda lögin?

 • Einstaklinga eða lögaðila sem stunda framleiðslu á vöru sem falla undir C-bálk íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008.
 • Einstaklinga eða lögaðila sem framleiða með ræktun ávexti, blóm eða grænmeti og fullvinna framleiðslu sína í söluhæfar umbúðir enda falli framleiðslan undir flokk 01.1, ræktun nytjajurta annarra en fjölærra, og/eða flokk 01.2, ræktun fjölærra nytjajurta, í A-bálki íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008.

Upplýsingar um atvinnugreinaflokk er hægt að finna hjá fyrirtækjaskrá Skattsins en hægt er að fletta upp á aðilum hér.

Um nánari skilyrði er fjallað hér til hliðar.

Hvenær er hægt að sækja um?

Opnað hefur verið fyrir umsóknir vegna flutninga ársins 2023. Vakin er athygli umsækjenda á því að breytingar hafa verið gerðar á umsóknarferlinu til einföldunar og eru umsækjendur beðnir um að endurnýta ekki gömul excel skjöl.

Umsóknafrestur er til og með 31. mars ár hvert. Athugið að um lögbundinn lokafrest er að ræða, ekki er tekið við umsóknum sem berast eftir þann tíma.

Hvenær er styrkurinn greiddur út?

Allar umsóknir verða greiddar út í einu, eins fljótt og auðið er. Mikilvægt er að vanda umsóknina og svara fyrirspurnum tímanlega til þess að flýta fyrir afgreiðslu.

Hver getur sótt um?

Einstaklingar og lögaðilar sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. einstaklingar sem stunda atvinnurekstur og eru með lögheimili á styrksvæði og lögaðilar sem eru með starfsemi og heimilisfesti á styrksvæði (sjá útskýringu á styrksvæði hér neðar).
 2. umsækjandi þarf að stunda framleiðslu á vöru sem fellur undir c-bálk íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008 eða framleiðslu á vöru sem fellur undir flokk 01.1 og/eða flokk 01.2 í a-bálk íslensku atvinnugreinaflokkunarinnar ÍSAT2008 enda sé varan fullunnin í söluhæfar umbúðir.
 3. innanlandsmarkaður þar sem framleiðsluvaran er seld, eða útflutningshöfn, þarf að vera í að minnsta kosti 150 km frá framleiðslustað, til að viðkomandi teljist búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar.

Umsóknum verður synjað ef umsóknaraðili er ekki skráður í styrkhæfan ÍSAT flokk hjá fyrirtækjaskrá og/eða framleiðsla á vörunni fellur ekki undir þá flokka.

Hvað getur styrkurinn verið hár?

Hámark styrkja er 200.000 evrur á þriggja ára tímabili, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga um flutningsjöfnunarstyrki. Miðað er við gengi Seðlabanka Evrópu þann dag sem styrkur fæst staðfestur. Hægt er að fá alla upphæðina greidda á fyrsta ári ef heildarkostnaður gefur tilefni til. Athugið að hér gildir samtala fyrir alla opinbera styrki sem falla undir reglu um minniháttaraðstoð (de minimis).

Ef það kemur í ljós að fjárhæð flutningsjöfnunarstyrks er komin umfram hámarkið, ber umsækjanda að endurgreiða flutningsjöfnunarstyrkinn í heild. Það er því á ábyrgð umsækjanda að fylgjast með upphæðum styrkja sem hann hefur hlotið.

Reglur um minniháttaraðstoð og tengsl fyrirtækja

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2011 skulu flutningsjöfnunarstyrkir til hvers framleiðanda aldrei vera hærri en sem nemur 200.000 evrum á þriggja ára tímabili. Við útreikning hámarksfjárhæðar skal reikna með aðra styrki sem framleiðandi hefur fengið frá opinberum aðilum. Í þessu sambandi eru þó undanskildir sérstakir styrkir er aðili hefur fengið samkvæmt styrkjareglum sem ESA hefur samþykkt.

Samkvæmt 9. gr. sömu laga ber að endurkrefja um flutningsjöfnunarstyrk ef í ljós kemur að styrkþegi hefur vísvitandi veitt rangar eða villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum sem hafa áhrif á styrkveitingu. Þá ber að endurkrefja styrkþega um flutningsjöfnunarstyrkinn í heild ef að fjárhæð flutningsjöfnunarstyrks er komin umfram það hámark sem kveðið er á um í 3. mgr. 6. gr.

Með reglugerð um gildistöku reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) um ríkisaðstoð nr. 1165/2015 eru ákvæði reglugerðar framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 1407/2013 frá 18. desember 2013 um beitingu á 107. og 108. gr. sáttmálans um starfshætti ESB gagnvart minniháttaraðstoð innleidd í íslenskan landsrétt og hefur hún þar með bein réttaráhrif hér á landi.

Í reglugerðinni er fjallað um stakt fyrirtæki (e. single undertaking), sem þann aðila sem ekki getur fengið hærri fjárhæð í minniháttaraðstoð en sem nemur 200.000 evrum á þriggja ára tímabili. Þannig eru fyrirtæki sem tengjast hvert öðru á a.m.k. einhvern eftirfarandi hátt talin vera "stakt fyrirtæki":

 1. eitt fyrirtæki ræður meirihluta atkvæða hluthafa eða félaga í öðru fyrirtæki,
 2. eitt fyrirtæki hefur rétt til að skipa eða leysa frá störfum meirihluta manna í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn annars fyrirtækis,
 3. eitt fyrirtæki hefur yfirráð yfir öðru fyrirtæki samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við það fyrirtæki eða ákvæðum í stofnsamþykktum þess,
 4. eitt fyrirtæki sem er hluthafi eða félagi í öðru fyrirtæki, ræður eitt meirihluta atkvæða hluthafanna eða félaganna samkvæmt samningi við aðra hluthafa eða félaga fyrirtækisins.

Nánari leiðbeiningar við að meta hvort fyrirtæki teljist stakt fyrirtæki er að finna í leiðbeiningum frá ESB, samantektin hefst á bls 15.

Undantekningar og takmarkanir

Ekki eru veittir styrkir:

 1. til aðila sem skulda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi.
 2. til aðila sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á síðastliðnum fimm árum fyrir dagsetningu umsóknar.
 3. vegna útflutnings, nema vegna kostnaðar við flutning innanlands að útflutningshöfn.

Á hvaða styrksvæði er starfsemin?

Til styrksvæða teljast þau þrjú svæði þar sem heimilt er að beita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti ESA. Umsækjandi þarf að vita hvaða svæði hann tilheyrir og miða umsókn við það. Á þessari mynd má sjá skiptingu svæðanna.

 • Svæði 1 - Framleiðendur (umsækjendur) á svæði 1 sem flytja vörur með viðurkenndum flutningsaðila eða flytja sjálfir vörur að uppfylltum skilyrðum til eða frá styrksvæði, geta fengið 10% styrk af ferðum sem eru að lágmarki 150 km en 15% ef ferð er lengri en 390 km.
 • Svæði 2 - Framleiðendur (umsækjendur) á svæði 2 sem flytja vörur með viðurkenndum flutningsaðila eða flytja sjálfir vörur að uppfylltum skilyrðum til eða frá styrksvæði, geta fengið 20% styrk af ferðum sem eru 150 - 390 km, en 30% styrk af ferðum lengri en 390 km.
 • Svæði 3 – flutningur ekki styrkhæfur.

Miða skal við kílómetralengd sem gefin er upp á síðu Vegagerðarinnar og er miðað við aðalleið.

Hvað er styrkhæf framleiðsla á vöru?

Vara getur verið fullunnin eða hálfunnin.

 • Fullunnin vara er tilbúin til nýtingar eða neyslu.
 • Hálfunnin vara er ílag sem notað er við framleiðslu.

Til þess að flutningur á vöru reynist styrkhæfur þarf að hafa átt sér stað ummyndun efnis í nýjar afurðir sem falla undir c-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni á styrksvæði auk annarra skilyrða um vegalengd flutnings. Þá telst flutningur á umbúðum styrkhæfur, en ekki tómum vörubrettum.

Umsóknum verður synjað ef umsóknaraðili er ekki skráður í styrkhæfan ÍSAT flokk hjá fyrirtækjaskrá og/eða framleiðsla á vörunni fellur ekki undir þá flokka.

Hvað er styrkhæfur flutningskostnaður?

Sá kostnaður sem stofnað er til vegna flutnings vöru innan lands. Virðisaukaskattur eða hvers konar endurgreiðsla af hendi flytjanda telst ekki til flutningskostnaðar. Að sama skapi ber að draga frá flutningskostaði aðra styrki sem veittir hafa verið vegna flutninga. Þá telst kostnaður vegna hleðslu og geymslu á vörum ekki til flutningskostnaðar. Reikningar vegna styrkhæfra flutninga þurfa að hafa verið greiddir og færðir í bókhald umsækjanda.

Hvað er styrkhæfur flutningsmáti?

Ávallt skal velja hagkvæmustu flutningsleið, hvort sem er á sjó, landi eða lofti. Veittir eru flutningsjöfnunarstyrkir ef vara er flutt með flutningsaðila sem með samningi tekur að sér vöruflutning fyrir annan, eiganda, sendanda eða móttakanda vörunnar. Reikningur frá flutningsaðila skal stílaður á umsækjanda. Framleiðanda er einnig heimilt að flytja vöru sína sjálfur svo fremi að kostnaði vegna flutnings vöru til eða frá styrksvæði sé haldið aðgreindum frá öðrum kostnaði í bókhaldi hans. Einnig ber að halda sölutölum hvers styrksvæðis aðgreindum.

Hvaða gögn þurfa að fylgja umsókn?

Í 3. gr. reglugerðar nr. 121/2019 eru talin upp þau gögn sem ber að skila með umsóknum um flutningsjöfnunarstyrki. Byggðastofnun hefur ákveðið að skila þarf inn hluta gagnanna með umsókninni sjálfri en önnur gögn þarf Byggðastofnun að fá aðgang að sé óskað eftir því. Þau gögn sem skulu fylgja umsókn eru:

 1. Excel hjálparskjal þar sem búið er að fylla inn í þar til greinda reiti
  1. Nafn, kennitölu og lögheimili framleiðanda
  2. Tegund starfsemi og framleiðslu
  3. Heildarkostnað styrkhæfra flutninga ásamt sundurliðun hvers flutnings
  4. Yfirlýsing um að styrkur til styrkþega fari ekki yfir 200.000 evrur á 3 ára tímabili og yfirlit yfir styrki síðustu 3 ára frá umsóknardegi.
 2. Staðfesting á að styrkþegi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi.
  1. Þessar upplýsingar má sækja rafrænt í sjálfsafgreiðslu HÉR.
 3. Staðfesting á að styrkþegi hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum frá dagsetningu umsóknar.
  1. Umsækjandi sendir inn VOG skýrslu frá Creditinfo þar sem fram kemur nafn og kennitala fyrirtækisins
 1. Stutta greinargerð um fyrirtækið og framleiðsluna.
  1. Í hvaða atvinnugrein er umsækjandi?
  2. Hvernig fer framleiðsla fram?
  3. Hvaða hráefni og umbúðir þarf til að koma vörunni á markað?
  4. Hvar er innanlandsmarkaður og/eða útflutningshöfn framleiðanda?
  5. Hvernig býr framleiðandi við skerta samkeppnisstöðu?
  6. Tilgangurinn með þessu er að veita þeim sem yfir umsóknina fara nánari upplýsingar um framleiðsluna og starfsemi.

Þau gögn sem Byggðastofnun skal geta fengið aðgang að eftir fyrirspurnum eru eftirfarandi:

 1. Afrit af reikningum vegna flutninga á vöru þar sem fram koma upplýsingar um hver óskar eftir flutningi, kostnað vegna flutninga, frá hvaða svæði og til hvaða svæðis er flutt, heiti kaupanda, flutningsvegalengd, heiti vöru, magn, þyngd og rúmmál hennar. Hafi fram­leið­andi flutt vöru sína sjálfur skal hann skila kostnaðaryfirliti þar sem fram koma sömu upp­lýsingar og taldar eru upp í 1. málslið.
 2. Afrit af móttökukvittun vegna flutnings á vöru þar sem fram kemur staðfesting kaupanda á því að hann hafi móttekið vöru.
 3. Hreyfingalista fyrir allt árið frá hverjum flutningsaðila.
 4. Hreyfingalista úr bókhaldi fyrir árið sem sýnir að flutningskostnaði til og frá styrksvæði er haldið aðgreindum frá öðrum kostnaði.

Mögulegt er að óskað verði eftir frekari gögnum en talin hafa verið upp hér.

Verði umsækjandi ekki við beiðni Byggðastofnunar um aðgang að fyrrgreindum upplýsingum innan hæfilegs frests sem Byggðastofnun ákveður getur Byggðastofnun hafnað umsókn umsækjanda.

Excel skjal sem skal fylgja umsókn

Með því að smella hér má sækja excel skjal sem þarf að fylla út í og skila með umsókn. Í skjalinu er hægt að sjá hvaða upplýsingar það eru sem þurfa að liggja fyrir með umsókn. Flest flutningafyrirtæki geta útvegað rafrænt yfirlit, yfir ákveðið tímabil, með flestum af þeim upplýsingum sem fram þurfa að koma.

Athugið að um nokkra flipa er að ræða, og skal fylla inn í það sem við á eins og skýrt er út í fyrsta flipa sem kallast Leiðbeiningar. Leiðbeiningarnar má einnig finna hér:

 • Upplýsingar um umsækjanda: Þar fyllir þú inn helstu upplýsingar til þess að hægt sé að taka umsókn fyrir, hafa samband og greiða út ef umsókn er samþykkt.
 • Styrkir fyrri ára: Þar fyllir þú inn hvaða aðilar (ef einhverjir) eru tengdir umsækjanda skv. leiðbeiningum þar um og hversu háa styrki þessir aðilar hafa fengið greidda undanfarin 3 ár (að meðtöldu umsóknarári).
 • Flutningur - Eimskip: Þar afritar þú inn gögn úr skjalinu sem þú færð sent frá Eimskip. Þú þarft svo að flokka hverja línu í dálk R.
 • Flutningur - Samskip: Þar afritar þú inn gögn úr skjalinu sem þú færð sent frá Samskip. Þú þarft svo að flokka hverja línu í dálk Q.
 • Flutningur - aðrir: Þar fyllir þú inn allar ferðir sem farnar eru með öðrum flutninsgaðilum en Eimskip og Samskip og flokkar línur í dálk Q.
 • Útflutningur: Þar eru settar upplýsingar um innanlands flutning lengri en 150 km frá framleiðslustað að útflutningshöfn.
 • Flutningur á eigin bíl: Þar fyllir þú inn allar ferðir sem farnar á eigin bíl og flokkar línur í dálk O. Kostnaður vegna reksturs bílsins er settur í flipann Yfirlit.
 • Yfirlit: Þar má sjá með einföldum hætti hvort að vegalengd flutninga er undir 150km í einhverjum flipa eða hvort að flokkun á ferðum vantar. Einnig eru upplýsingar um styrkhæfan kostnað og umsóttan styrk úr hverjum flutningsflipa fyrir sig. Þá eru forsendur kostnaðar vegna flutnings á eigin bíl slegnar inn ef umsækjendur sækja um styrk vegna flutnings á eigin bíl.
 • Samantekt: Þar ætti sjálfkrafa að reiknast styrkhæfur flutningskostnaður og umsóttur styrkur fyrir hálfunna og fullunna vöru brotið niður eftir vegalengdum. Sé um einhvern annan flutning sem ekki á heima í flutningsflipunum að ræða skal færa hann handvirkt inn í reiti D10 og D11. Sé einhverskonar annar styrkhæfur flutningskostnaður skal fylgja í greinargerð með umsókn nánari lýsing á slíkum flutningskostnaði og rökstuðningur fyrir því að hann sé styrkhæfur.

Vinsamlega hafið samband við kristofer[hjá]byggdastofnun.is ef einhverjar spurningar vakna.

Upplýsingar á síðunni eru birtar með fyrirvara um villur. Lög og reglugerðir gilda í vafatilvikum.