Eitt af einkennum eyja og afskekktra samfélaga er seigla, líffræðilegur fjölbreytileiki og menningarleg auðlegð. Ráðstefnan um eyjar og afskekkt samfélög verður haldin í Háskólasetri Vestfjarða í samstarfi við Háskóla Íslands og Árnastofnun, dagana 3.-5. október 2024. Markmiðið með ráðstefnunni er að beina athygli að mikilvægi eyja og afskekktra samfélaga sem eru í sífelldri þróun og er mikilvægt að rannsaka. Eyjar eru með sérstakt vistkerfi og samfélagsgerð og standa frammi fyrir einstökum áskorunum eins og áhrif loftslagsbreytinga og viðkvæmt jafnvægi sjálfbærrar þróunar. Eyjar og afskekkt samfélög gegna mikilvægu hlutverki í tengslum við alþjóðlega, vistfræðilega og menningarlega arfleið. Með þetta hlutverk í huga miðar þessi ráðstefna að því að kanna eyjasamfélög út frá þremur yfirgripsmiklum þemum: menningu, tungumáli og menntun. Ráðstefnan mun leiða saman þátttakendur með ólíkan bakgrunn og hvetja til þverfaglegrar umræðu til að koma auga á vannýtta möguleika eyja sem „rannsóknarstofur“ fyrir nýstárlegar rannsóknir, stefnumótun og eflingu samfélagsins. Á ráðstefnunni verða hringborðsumræður, málþing, vinnustofur og skapandi kynningar. Fyrir áhugasama er hægt að lesa meira um eyjar og eyjasamfélög hér.
Aðalfyrirlesarar verða:
Dr. Laurie Brinklow, lektor og umsjónamaður meistaranáms í eyjafræðum og formaður "Institute of Island Studies" við Prince Edward Islands háskólann í Charlottetown, Canada. Hún styður við rannsóknir á sjálfbærum eyjasamfélögum um allan heim, þekkingaöflun þeirra og opinberar þátttöku. Hún kennir einnig "islandsness" í MA námi í eyjafræðum og hefur umsjón með framhaldsnemum. Hún er forseti "International Small Island Studies Association" og er heiðurskonsúll íslands fyrir Prince Edward eyjar. í doktorsrannsókn hennar kannaði hún tengsl fólk við eyjar með því að skoða "islandness" hjá listamönnum frá Tasmaníu og Nýfundnalandi.
Ástráður Eysteinsson, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands um árabil, fyrst sem stundakennari í almennri bókmenntafræði og ensku, síðan sem lektor og dósent í almennri bókmenntafræði og frá 1994 sem prófessor. Hann hefur verið gestaprófessor við erlenda háskóla og verið virkur í alþjóðlegri rannsóknasamvinnu, auk þess að hafa sinnt margskonar stjórnunarstörfum við Háskóla Íslands. Hann var forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands frá tilurð þess á haustmisseri 2008 til ársloka 2015.
Gísli Pálsson, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hans síðastliðna fjóra áratugi hafa spannað breitt svið, allt frá íslenskum fornbókmenntum til nútíma erfðafræði. Gísli hefur í ritum sínum fjallað um mörg viðfangsefni, oft á mörkum ólíkra fræðigreina, svo sem kvótakerfið, nafnahefðir og líftækni. Undanfarin ár hefur hann einkum látið lífheiminn og umhverfismál til sín taka. Annars vegar er um að ræða rannsóknir á skilningi fólks á erfðaeinkennum, líffélagslegum tengslum (e. biosociality) og vaxandi áhrifum manna á lífið „sjálft“, til dæmis með erfðaverkfræði. Gísli hefur hlotið margs konar viðurkenningu fyrir fræðistörf sín. Hann hlaut verðlaun Rossenstiel School við Miamiháskóla (2000), viðurkenningu Háskóla Íslands fyrir rannsóknir (2001) og heiðursverðlaun úr Verðlaunasjóði Ásu Guðmundsdóttur Wright (2014). Hann hefur ritað um 130 greinar og bókarkafla á ritrýndum vettvangi og um 25 bækur, stundum sem meðhöfundur. Þá hefur hann einnig unnið að nokkrum heimildamyndum.