Fara í efni

Fundargerð 4. fundar stjórnar Vestfjarðastofu

19.02.2018 00:00

Stjórnarfundur Vestfjarðastofu ses.

Fundur settur kl. 9:00 hinn 19. febrúar 2018 að Árnagötu 2-4 Ísafirði.

Mætt voru: Pétur G. Markan formaður, Ingibjörg Emilsdóttir, Víkingur Gunnarsson (í síma), Ágústa Ýr Sveinsdóttir (í síma), Kristján Jóakimsson, Sigurður Hreinsson, Jón Örn Pálsson og Margrét Jónmundsdóttir.  Hólmfríður Vala Svavarsdóttir boðaði forföll.

Starfsmenn fundarins voru Aðalsteinn Óskarsson og Róbert Ragnarsson (í síma), sem ritaði fundargerð. Sigríður Ó. Kristjánsdóttir kom til fundarins kl. 9.25 eftir afgreiðslu ráðningarsamnings undir dagskrárlið 2.

Dagskrá fundarins:

1. Fundargerð síðasta fundar
Fundargerð síðasta fundar var staðfest.

2. Ráðning framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu ses.
Ráðningarsamningur framkvæmdastjóra dags. 31. janúar 2018 lagður fram.

Samningurinn er samþykktur samhljóða.

Framkvæmdastjóri hóf störf 15. febrúar 2018 í 50% stöðuhlutfalli samhliða verkefnum sínum hjá Nýsköpunarmiðstöð. Hún kemur til fullra starfa 15. mars.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir nýr framkvæmdastjóri kom til fundarins kl. 9.25 og bauð stjórn hana velkomna til starfa.

3. Fjárhagsáætlun Vestfjarðastofu ses. 2018
Aðalsteinn og Sirrý kynntu drög að fjárhagsáætlun ársins 2018.

Fjárhags- og starfsáætlun verður tekin til afgreiðslu á næsta fundi stjórnar.

4. Starf sviðsstjóra atvinnuþróunar
Með vísan til þess að mikilvægt er að koma starfsemi og verkefnum Vestfjarðastofu ses. á fyrsta starfsári af stað sem fyrst, leggur Sirrý fram tllögu um tímabundna ráðningu í starfið. Jafnframt er vísað til tillögu að stefnumótun félagsins og hugmyndar um markaðssetningu Vestfjarða undir einu vörumerki. Lagt er til að Díönu Jóhannsdóttur, verkefnisstjóra markaðsstofu Vestfjarða, verði boðið að taka að sér starf sviðsstjóra tímabundið til eins árs og keyra verkefnið að stað. Hún hefur unnið að markaðssetningu ferðamála á Vestfjörðum í sínum störfum og tekið þátt í stefnumótunarvinnu Vestfjarðastofu ses.

Samþykkt samhljóða að bjóða Díönu starfið.

Framkvæmdastjóra og væntanlegum sviðsstjóra atvinnuþróunar falið að koma á næsta fund þar sem mótuð verði sýn og kynnt tillaga að verklagi við markaðssetningu Vestfjarða.

5. Auglýsing starf verkefnastjóra atvinnu-og byggðamála Vestfjarðastofu ses. á sunnanverðum Vestfjörðum

Drög að auglýsingu lögð fram. Sirrý kynnti áherslur í auglýsingunni, en lögð er áhersla á þekkingu og reynslu í haggreiningum, verkefnastjórnun, ráðgjöf og atvinnuþróun. Góð þekking á sjávarútvegi og/eða fiskeldi er mikilvæg. Verkefnastjórinn verður með starfsstöð á Patreksfirði.

Samþykkt samhljóða að fela framkvæmdastjóra að auglýsa starfið.

6. Aðilaskipti milli FV og AtVest til Vestfjarðastofu ses.
Áætlað er að aðilaskipti fari fram um miðjan mars, þegar framkvæmdastjóri hefur komið til fullra starfa.

7. Lýðháskólinn á Flateyri
Helena Jónsdóttir framkvæmdastjóri kom á fundinn og kynnti verkefnið.

8. Næsti fundur stjórnar
Næsti fundur verður í mars. Tímasetning ákveðin í tölvupósti. 

Fleira var ekki gert og fundi slitið klukkan 10:50