Fundagerð stækkaðar samgöngunefndar Fjórðungssambands Vestfirðinga, haldinn þann 1. mars 2021, kl 10.00 í fjarfundi.
Mætt voru Iða Marsibil Jónsdóttir, Vesturbyggð, formaður samgöngunefndar FV og í stjórn FV, Bjarnveig Guðbrandsdóttir, samgöngunefnd FV, Jón Gísli Jónsson, samgöngunefnd FV, Sigurður Hreinsson,samgöngunefnd FV, Arinbjörn Bernharðsson, varafulltrúi í samgöngunefnd, Finnur Ólafsson, Kaldrananeshreppi, Jóhanna Ösp Einarsdóttir, Reykhólahreppi og í stjórn FV, Baldur Smári Einarsson, Bolungarvíkurkaupstað og Ásgeir Hólm Ragnarsson, Súðavíkurhreppi. Auk þeirra sat fundinn Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri Vestfjarðastofu sem ritaði fundargerð.
Formaður setti fundinn og kynnti að við boðun funda stækkaðar samgöngunefndar væri leitast við að fulltrúar frá öllum sveitarfélögum sætu fundi nefndarinnar. Ef aðalmaður eða varamaður í samgöngunefnd væru forfallaðir væri leitast eftir að þeir boðuðu fulltrúa úr sveitarstjórn eftir því sem við væri komið. Fram kom að boðun á fundinn væri með eftirfarandi hætti.
Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir, í samgöngunefnd FV hefði boðað forföll og í hennar stað sæti fundinn Baldur Smári Einarsson, Bolungarvíkurkaupstað.
Samúel Kristjánsson, varamaður í samgöngunefnd FV hefði boðað forföll og í hans stað sæti fundinn Ásgeir Hólm Ragnarsson, Súðavíkurhreppi
Kaldrananeshreppur og Reykhólahreppur ættu ekki aðal eða varamenn í samgöngunefnd og væru fulltrúar þeirra boðaðir sérstaklega en þau væru þau Finnur Ólafsson og Jóhanna Ösp Einarsdóttir.
Dagskrá fundarins.
- Niðurstaða af valkostagreiningu sveitarfélaga varðandi jarðgöng á Vestfjörðum.
- Forgangsröðun vegaframkvæmda, samtal við sveitarstjórnir.
- Önnur mál
Gengið til dagskrár
- Niðurstaða af valkostagreiningu sveitarfélaga varðandi jarðgöng á Vestfjörðum.
Formaður gaf sviðsstjóra orðið.
Lögð fram samantekt á svörum sveitarfélaga á Vestfjörðum, við erindi Vestfjarðastofu f.h. Fjórðungssambands um valkostagreiningu jarðgangakosta, á grundvelli vinnuskjals Jarðgangaáætlun Vestfjarða. Til skoðunar voru eftirfarandi jarðgangakostir, Klettsháls, Kleifaheiði, Miklidalur, Hálfdán, Dynjandisheiði (Kollagötugöng), Dynjandisheiði (Geirþjófsfjörður-Dynjandisvogur), breikkun Breiðadals og Botnsheiðargangna, Súðavíkurgöng (sem nefnd eru Álftafjarðargöng í Samgönguáætlun) með tveim útfærslum, lengri göng milli Skutulsfjarðar og Álftafjarðar og styttri göng á Súðavíkurhlíð.
Haldnir voru þrír fjarfundir 18. og 19. janúar s.l. með sveitarfélögum á norðanverðum Vestfjörðum, sunnanverðum Vestfjörðum og sveitarfélögum á Ströndum og í Reykhólahreppi. Erindi var sent á sveitarstjórnir í framhaldi fundarins þar sem óskað var að sveitarstjórnir forgangsröðuðu jarðgangakostum. Mótun erindis og skipulag funda var unnið í samráði við formann samgöngunefndar og formann stjórnar FV.
Svör við erindinu hafa borist frá Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppi, Ísafjarðarbæ, Súðavíkurhreppi, Kaldrananeshreppi, Strandabyggð og Reykhólahreppi.
Sviðsstjóri kynnti efni vinnuskjals þar sem svör sveitarfélaga hafa verið flokkuð varðandi valkosti. Kynnt að, settar hafa verið inn nýjar upplýsingar um umferðarmælingar og lokunardaga, sem voru ekki á fyrra skjali sem kynnt var sveitarfélögunum í janúar s.l..
Til máls tóku Iða, Jóhanna, Finnur, Sigurður, Baldur og Bjarnveig.
Niðurstaða umræðu.
- Valkostagreining sveitarfélaga forgangsraðar verkefnum með áherslu á tengingu innan atvinnusvæða á norðanverðum og á sunnanverðum Vestfjörðum. Fyrsti valkostur í jarðgangakostum eru því þrjú jarðgöng; Álftafjarðargöng (lengri valkostur), Hálfdán og Miklidalur.
- Samgöngunefnd felur Vestfjarðastofu að óska eftir stuðningi stjórnvalda við gerð félagshagfræðilegrar greiningar á áhrifum á tilgreindum jarðgangakostum innan atvinnusvæðanna á norðanverðum og á sunnanverðum Vestfjörðum. Eins verði gerð félagshagfræðileg greining á samanlögðum áhrifum jarðgangaframkvæmda fyrir Vestfirði í heild.
- Samkvæmt Samgönguáætlun 2020-2024 verður framkvæmdum á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit og Dynjandisheiði lokið í byrjun árs 2025. Fyrirséð er að umferð um Klettháls og um Breiðadals og Botnsheiðargöng, muni aukast verulega þegar þeirri framkvæmd er lokið. Tryggja verður að fyllsta öryggis sé gætt fyrir umferð um jarðgöng og fjallvegi. Við endurskoðun Samgönguáætlunar 2022-2037 skal því tryggt fjármagn til nauðsynlegra endurbóta á jarðgöngum og vetrarþjónusta tryggi umferð meginhluta sólarhringsins á fjallvegum.
- Jarðgöng um Kleifaheiði, Dynjandisheiði (Kollagötugöng), Dynjandisheiði (Geirþjófsfjörður-Dynjandisvogur) verði skoðuð síðar, en mikilvægt að halda þessum jarðgangakostum í umræðu um innviðamál og skipulagsmál á Vestfjörðum m.a. áætlunum um uppbyggingu þjóðgarðs á Vestfjörðum.
- Annað. Fram kom að sveitarstjórn Árneshrepps hefði á fundi þann 23. febrúar s.l. tekið undir áherslur í nýrri greinargerð verkefnisins Áfram Árneshreppur varðandi uppbyggingu innviða í sveitarfélaginu. Þar kemur fram að leysa þarf af veg um Kjörvogshlíð með nýjum vegi um Naustavíkurskörð eða með jarðgöngum.
Sviðsstjóra falið að ljúka við gerð vinnuskjalsins „Jarðagangaáætlunar fyrir Vestfirði“ á grundvelli niðurstöðu sveitarfélaga og stækkaðar samgöngunefndar. Litið verið á greinargerðina sem hluta af Innviðaáætlun fyrir Vestfirði. Jarðgangaáætlun fyrir Vestfirði komi til endurskoðunar þegar niðurstöður félagshagfræðigreiningar liggja fyrir. En á þessum tímapunkti er mikilvægt að ljúka við vinnuskjalið og líta á það sem áfangaskýrslu inn í umræðu um jarðgangaframkvæmdir á Íslandi.
2 Forgangsröðun vegaframkvæmda, samtal við sveitarstjórnir.
Formaður gaf sviðsstjóra orðið.
Lagt fram vinnuskjal „Veghlutar á Vestfjörðum“ sem byggir á upplýsingum úr öryggisúttekt á vegum á Vestfjörðum ásamt upplýsingum um umferð, slysatíðni, þungaflutningum, skólaakstri o.fl.. Allir stofnvegir og meginhluti héraðsvega eru teknir til skoðunar eftir vegnúmerum, en Vestfjarðavegi 60 og Djúpvegi 61, er skipt upp í vegkafla eftir því hvernig þeir stofnvegir nýtast sem tenging innan atvinnusvæða og eða milli atvinnusvæða.
Sviðsstjóri gerði að tillögu að vinnuskjalið færi nú til frekari úrvinnslu með stækkaðri samgöngunefnd og eða með einstaka sveitarstjórnum. Markmiðið væri að fá fram forgangsröðun verkefna innan hvers sveitarfélags sem legði grunn að forgangsröðun fyrir Vestfirði í heild. Ásamt vinnuskjalinu lægju til grundvallar gögn úr öryggisúttekt á vegum á Vestfjörðum er varðaði umferð, slysatíðni og myndir af ástandi allra vega sumarið 2020.
Horfa verði til í þessu verkefni að samþykktar hafa verið nýframkvæmdir við stofnvegi á Vestfjörðum í Samgönguáætlun 2020-2034 og á þeim framkvæmdum að vera lokið fyrir árið 2028. Samhliða væri brýn nauðsyn á viðhaldi og endurbótum á stofnvegum, héraðsvegum og í tilvikum landvegum sem fjármagnaðir væru úr aðgreindum verkefnapottum hjá Vegagerðinni. Þessum framkvæmdum yrði að forgangsraða og koma áherslum á framfæri við Vegagerð, ráðuneyti og Alþingi.
Formaður gaf orðið laust.
Til máls tóku Iða, Jóhanna, Baldur, Sigurður, Bjarnveig, Arinbjörn, Finnur, Jón Gísli og Ásgeir.
Samþykkt var að fara í nánari vinnu með hverri sveitarstjórn á Vestfjörðum. Fulltrúum í nefndinni er falið að leiða þá vinnu og koma á framfæri upplýsingum innan síns sveitarfélags. Vestfjarðastofa haldi síðan fund með sveitarstjórn þar sem farið er yfir forgangsröðun.
3 Önnur mál
Formaður vísaði til kynningarfundar Vegagerðarinnar þann 23. febrúar s.l. þar sem fjallað var um vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og lagði til að umræða verði tekin um framkvæmd vetrarþjónustu. Til máls tóku, Iða, Jóhanna, Arinbjörn, Jón Gísli og Sigurður.
Samþykkt var eftirfarandi ályktun.
Samgöngunefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga telur að það kerfi sem Vegagerðin hefur verið að byggja upp á síðustu árum varðandi vegaþjónustu, sé í stakk búið að fylgja eftir þróun umferðar og kröfum samfélaga, varðandi framkvæmd, eftirlit og upplýsingagjöf, ekki síst fyrir vetrarþjónustuhlutann. Þróa þarf þó betur upplýsingagjöf í rauntíma og ljúka vinnu við hvernig koma megi á auglýstum fylgdarakstri.
Samgöngunefnd harmar hinsvegar að fjárveitingar til vetrarþjónustu eru ekki aðlagaðar að ástandi vega og veðurfars hverju sinni. Breyta viðmiðunum og mæta auknum þörfum atvinnulífs og samfélaga en mörg ár eru þar til að lokið verði við vegaframkvæmdir samkvæmt Samgönguáætlun 2020-2034. Eins er skorað á Alþingi og samgönguráðuneyti að veitt sé fjármagni til að greiða upp reiknaða halla á vetrarþjónustu síðustu ára og fjárveitingar auknar til málaflokksins.
Helstu verkefni á Vestfjörðum eru sem hér segir;
- farið verði strax í að hækka verði þjónustustig á Strandavegi norður í Árneshrepp, úr G flokki í F flokk (mokstur tvisvar í viku). Ekkert annað sveitarfélag í landinu býr við þá stöðu að vera lokað inni í þrjá mánuði á ári.
- farið verði strax í að moka alla daga á Dynjandisheiði. Reynslan sýnir að mögulegt er að halda heiðinni opinni, en núverandi þjónusta miðast við þarfir atvinnulífs, en mætir mun síður þörfum íbúa að sækja þjónustu og afþreyingu á milli norðan og sunnanverðra Vestfjarða, auk aksturs ferðamanna.
- farið verði strax í að lengja þjónustutíma á Vestfjarðavegi 60, um Klettháls og í Gufudalssveit og mæta brýnni þörf atvinnulífs og samfélaga.
- bætt verði við vetrarþjónustu um Bíldudalsvegi af Dynjandisheiði og að flugvelli.
- lengja þarf þjónustutíma almennt en sérstaklega þarf að huga að aukinni vetrarþjónustu á Mikladal, Hálfdán og um Súðavíkurhlíð þar til gerð hafa verið jarðgöng til að leysa af þessa vegkafla.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl 10.00.
Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri.