Fara í efni

Vöxtur og vaxtarverkir á Vestfjörðum

Störf í sjódeild fiskeldisfyrirtækja
Störf í sjódeild fiskeldisfyrirtækja

Um síðustu helgi auglýsti fiskeldisfyrirtækið Arnarlax 31 nýtt starf á sunnanverðum Vestfjörðum. Um er að ræða fjölbreytt störf en flest þó í sjódeild félagsins þannig að búseta á svæðinu er mikilvæg og innviðir þurfa að fylgja með vextinum.

Vestfjarðastofa hefur unnið að úttekt á innviðum Vestfjarða og farið yfir hvernig við erum í stakk búin að takast á við þessa spennandi áskorun, fólksfjölgun á Vestfjörðum. Vöxtur fyrirtækja í fiskeldi er hraður og ferðaþjónustan er í startholum mikils vaxtar á næstu árum. Flöskuhálsar þessa vaxtar eru nokkrir en þeir stærstu eru framboð á íbúðahúsnæði í nánast öllum byggðakjörnum á Vestfjörðum. Með 30 nýjum störfum á sunnanverðum Vestfjörðum má gera ráð fyrir fjölgun um 50-60 manns miðað við skýrslu KPMG sem unnin var fyrir Vestfjarðastofu á síðasta ári, á svæði sem nú búa um 1.400 manns.

Sveitarfélög á svæðinu hafa verið meðvituð um þessa flöskuhálsa um nokkurn tíma og á sunnanverðum Vestfjörðum eru skipulagsmálin hjá Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppi í góðum farvegi og nægar lóðir til húsbygginga fyrir nýja íbúa. Sveitafélögin hafa verið að selja íbúðir í sinni eigu og góð hreyfing hefur verið á fasteignamarkaði.

Markaðurinn ætti að vera búinn að bregðast við uppsveiflunni af krafti og nýtt húsnæði komið í byggingu nú þegar. Svo er þó ekki þar sem enn er umtalsverður munur á byggingakostnaði og markaðsverði á húsnæði og þar kemur sterkt inn hár flutningskostnaður á aðföngum auk þess sem mikill skortur er á iðnaðarmönnum til að byggja nýtt húsnæði. Því hefur Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun (HMS) unnið að lausnum til fjármögnunar til nýbyggingar í dreifðari byggðum landsins.

HMS leggur til stofnframlög til bygginga á leiguhúsnæðis í gegnum húsnæðissjálfseignarstofnanir HSES. Þrír stærstu aðilarnir eru á vegum Verkalýðsfélaganna í gegnum leigufélagið Bjarg og leigufélagið Brák er á vegum sveitafélaganna en bæði eru með tekju- og eignaviðmið og eru óhagnaðardrifin. Bríet er sjálfstætt starfandi leigufélag í eigu HMS stofnað að norrænni fyrirmynd og rekið án hagnaðarsjónarmiða og þar eru engar tekjutengingar. Allt er þetta gert til að bregðast við skorti á leiguhúsnæði á landsbyggðinni.

Lausnir á húsnæðisvanda á Vestfjörðum liggja þó ekki endilega ljósar fyrir og líklegt er að þar þurfi samstarf margra aðila. Sveitarfélögin ein geta ekki tekið alla áhættu af þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað, sérstaklega ekki þegar tekjur þeirra af helstu atvinnugreinum eru nánast eingöngu í formi útsvars eins og fram kemur í nýlegri úttekt KPMG sem unnin var fyrir Samtök sjávarútvegssveitarfélaga.

Vestfjarðastofa vinnur að því þessa dagana eins og áður sagði að ljúka úttekt á innviðum Vestfjarða. Annars vegar innviðum sveitarfélaga svo sem lausum lóðum til íbúðarhúsnæðis og atvinnustarfsemi og hins vegar gerð innviðaáætlunar fyrir Vestfirði sem felst í að gera áætlun um uppbyggingu grunninnviða á sviði samgangna, orkumála og fjarskipta. Niðurstöður þessara greininga nýtast til að finna leiðir til lausna til dæmis á húsnæðisvanda svæðisins.

Fræjum hefur verið sáð og á síðustu árum hefur verið hafist handa við eina og eina nýbyggingu á sunnanverðum Vestfjörðum en það er trú okkar að nú fari keðjuverkun af stað til að svara brýnni húsnæðisþörf en til þess þarf fjármagn, frumkvæði og drift allra aðila til að taka af skarið og hefjast handa.