Fara í efni

Vinnustofa um húsnæðis- og skipulagsmál

Fréttir
Magnús Þór Bjarnason með Brynjari Þór Jónassyni
Magnús Þór Bjarnason með Brynjari Þór Jónassyni

Félags- og húsnæðismálaráðuneytið bauð til vinnustofu fimmtudaginn 4. desember síðastliðinn og tók Magnús Bjarnason þátt í henni fyrir hönd Vestfjarðastofu. Vinnustofan sem fram fór á Fosshóteli við Þórunnartún var hluti af undirbúningi ríkisins við vinnslu aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Viðburðurinn var sóttur af aðilum sem koma að húsnæðismálum á einhverju stigi; kjörnir fulltrúar, starfsmenn opinbera stofnana, bygginga- og þjónustuaðilar. Markmiðið var að ná breiðu viðhorfi og samráði til húsnæðismála, sem svo verða nýtt við vinnslu aðgerðarpakkans.

Ráðherra Inga Snæland, hafði ekki tök á því að sækja viðburðinn og flutti Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri opnunarávarp í hennar stað. Í því kom fram skilningur á vanda ungs fólks við að komast á húsnæðismarkað og ávarpað að þann vanda þyrfti að leysa.

Hildur Dungal, fulltrúi í fulltrúi félags- og húsnæðismálaráðuneytinu fór yfir markmið aðgerðarpakkans. Þau eru í aðal atriðum fyrirsjáanleiki framboðs, fjölbreytni í kostum, auk þess sem skapa þarf einfaldara og skilvirkara regluverk, sem var svo meginþema vinnustofunnar.

Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í Innviðaráðuneytinu tók næst til máls og kynnti tilvonandi breytingar hjá HMS varðandi húsnæðislán sem varða endurbætta fjármögnun til óhagnaðardrifinna leigufélaga og hækkun viðbótarframlags úr 4% í 5%, hærri tekjumörk fyrir hlutdeildarlán, þvert á hópa og leiguverð sem viðmið við mat á greiðslubyrði lántakenda. Kallað var eftir fleiri hentugum íbúðum og markvissu samstarfi við byggingaraðila. Kynntar breytingar á lánum HMS munu taka gildi 1.janúar næstkomandi.

Síðast var tölfræðierindi frá Elmari Erlendssyni hjá HMS. Samkvæmt tölfræði HMS þá gengur sala á nýjum íbúðum hægt. Mest eftirspurn er eftir íbúðum minni en 80m2 og stærri en 170m2 sem metið er eftir hlutfalli í byggingu og óseldum eignum í þessum flokkum. Einnig kom í ljós að verð fasteigna skiptir ungt fólk mestu máli, en eftir 55 ára aldur þá byrjar gæði eigna að skipta meira máli en verð þeirra.

Í verkefnahluta vinnustofunnar var unnið á borðum við að svara hvaða þættir skipta mestu máli varðandi skipulag og framkvæmdir bygginga og hvernig einfalda megi ferlið við byggingar. Niðurstöður vinnunnar voru eðlilega mjög höfuðborgarmiðaðar, en kallað var eftir virku samtali milli aðila og skýrum verkferlum. Aðilar vinnustofunnar voru sammála um nánast allar tillögurnar sem lagðar voru fram úr borðavinnunni. Aðgerðarpakkans er að vænta fljótlega upp úr áramótum.