Fara í efni

Vegna verklags við úthlutanir úr verkefnasjóði Sterkra Stranda


Nokkrar umræður hafa orðið um ferli við úthlutun styrkja úr verkefninu Sterkar Strandir og því er það ljúft og skylt fyrir fulltrúa Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu í verkefnisstjórn Sterkra Stranda að upplýsa um nokkur atriði í því ferli sem leiðir til úthlutunar styrkja til valdra verkefna í hverri lotu úthlutunar sem er einu sinni á ári frá og með árinu 2020.

Fulltrúar stofnana í verkefninu vilja þannig koma eftirfarandi á framfæri:

Verklag við úthlutun er hið sama um allt land, þ.e. í öllum þátttökubyggðarlögum Brothættra byggða og um verklagið hefur af hálfu Byggðastofnunar verið mótuð umgjörð, sjá verkefnislýsingu og viðauka með henni. Verklagið er í grófum dráttum sem hér segir:

• Verkefnisstjórn auglýsir eftir umsóknum, að jafnaði opið fyrir umsóknarskil í 4 vikur
• Þriggja til fjögurra manna matshópur fer vandlega yfir umsóknir og gefur þeim stig m.v. fyrirfram skilgreinda matsþætti. Þeir eru:


1. Fellur vel að skilaboðum íbúaþings og stefnumótun verkefnisins
2. Útkoma nýtist sem flestum
3. Trufli ekki samkeppni
4. Leiði til atvinnusköpunar, helst á heilsársgrundvelli
5. Sé líklegt til árangurs og þekking/reynsla sé til staðar
6. Að markaðslegar og/eða rekstrarlegar forsendur séu trúverðugar
7. Áhrifa gæti fyrst og fremst í byggðarlaginu
8. Hvetji til samstarfs og samstöðu
9. Styrkveiting hafi mikil áhrif á framgang verkefnis


• Í framhaldi af því gerir matshópurinn tillögu um styrkveitingu og gerir grein fyrir tillögunni í
greinargerð til verkefnisstjórnar. Við þetta starf er þess gætt vandlega að fulltrúar sem eru
tengdir umsóknum víki af fundum á meðan á þeirri umræðu stendur, eða séu ekki skipuð í
matshóp.
• Verkefnisstjórn fer yfir tillögur matshóps, ákveður úthlutun og ber ábyrgð á henni. Þar er gætt
að sömu atriðum varðandi vanhæfi. Þannig hafa fulltrúar íbúa og sveitarfélags gjarnan vikið
alfarið af verkefnisstjórnarfundinum undir liðnum úthlutun styrkja og/eða sagt sig frá setu á
úthlutunarfundum.
• Úthlutunin tekur mið af ofangreindri stigagjöf og því hverju verkefnisstjórn telur að áorkað
verði í hverju verkefni miðað við þá fjármuni sem til ráðstöfunar eru.

Þessu verklagi hefur verið fylgt vandlega í tilviki Sterkra Stranda frá og með fyrstu úthlutun á árinu 2020.

Frágangur umsókna er hluti af matsþáttum nr. fimm og sex sem lagðir eru til grundvallar stigagjöf en alltaf er reynt að mæta umsækjendum sem koma með góða hugmynd sem skorar hátt á aðra mælikvarða, jafnvel þó formi umsóknar sé að nokkru leyti ábótavant. Það er hins vegar rétt að benda á að íbúar hafa verið hvattir til að þroska hugmyndir sínar og leita aðstoðar verkefnisstjóra og/eða fleiri ráðgjafa Vestfjarðastofu við að móta umsókn og raunar er mælt eindregið með því. Hluti af ávinningi styrkjaferlisins er að auka þekkingu á verklagi og þann árangur má m.a. sjá í auknum árangri umsókna úr Brothættum byggðum í aðra sjóði. Með þessu verklagi er tryggt að jafnt þeir sem hafa mikla reynslu af umsóknargerð og þeir sem eru að stíga sín fyrstu skref eiga góða möguleika á jákvæðri niðurstöðu ef hugmyndin er góð og líkleg til að styrkja samfélagið í viðkomandi byggðarlagi.


Víða um land situr dugmikið fólk í verkefnisstjórnum sem vinnur jafnframt að framfaraverkefnum í sínu byggðarlagi og er ófeimið við að sækja um styrki og það er vel. Í úthlutunarferlinu er gætt að því að viðkomandi einstaklingar njóti sömu réttinda og aðrir íbúar hvað varðar möguleika á umsóknum og því er gætt mjög vel að vanhæfi þegar kemur að úthlutun úr sjóðum Brothættra byggða, sbr. lýsingu á ferlinu ofar í skjalinu. 

Þar til fyrir fáum árum var það bannorð að tala um úthlutun til stofnfjárfestingar af nokkru tagi (t.d. í búnaði eða mannvirkjum) í styrkjaumhverfi á Íslandi og var ávallt vísað í Evrópureglur í því samhengi. Fulltrúar Byggðastofnunar áttu þess kost að heimsækja atvinnuþróunarfélag í Suður-Englandi vorið 2017 og var það mjög fróðleg heimsókn. Það markverðasta var þó að hjá Evrópusambandinu þótti það sjálfsagt að veita styrki til stofnfjárfestingar í „brothættum byggðum“ að því gefnu að samkeppnissjónarmiðum væri ekki raskað. Þetta verklag var í kjölfarið tekið upp í Brothættum byggðum og hefur gefið mjög góða raun og skipt sköpum fyrir marga frumkvöðla. Oft er það þannig að grunnfjárfesting er of hár þröskuldur í litlum fyrirtækjum í samfélögum sem hafa takmarkaðan aðgang að mörkuðum.


Það er von fulltrúa Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu í verkefnisstjórn Sterkra Stranda að þessi skrif verði til upplýsingar fyrir alla þá sem hafa áhuga á málefnum Sterkra Stranda og að þau eyði allri óvissu um að starfið í verkefnisstjórn, að meðtöldu starfi við úthlutun fjármuna, hefur verið unnið af fullum heilindum þeirra sem að því hafa komið. Mörg góð verkefni vitna um góðan árangur af úthlutun síðustu ára og miða þau öll að sterkara samfélagi á Ströndum.


F.h. fulltrúa Byggðastofnunar og Vestfjarðastofu í verkefnisstjórn Sterkra Stranda,


Kristján Þ. Halldórsson,
formaður verkefnisstjórnar Sterkra Stranda
og annar tveggja verkefnisstjóra Brothættra byggða hjá Byggðastofnun

Aðalsteinn Óskarsson, fulltrúi Vestfjarðastofu í verkefnisstjórn Sterkra Stranda