Fara í efni

Umhverfislestin lauk ferð sinni á laugardaginn

Fréttir Náttúrulega Vestfirðir Græn skref Umhverfisvottun Vestfjarða

Þá er ferð Umhverfislestarinnar um Vestfirði lokið, en ferðinni lauk laugardaginn 2. nóvember 2019 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Ferðalag lestarinnar hefur verið í undirbúningi í um hálft ár en mikil vinna liggur að baki við öflun upplýsinga, hönnun og gerð sýningarinnar sem þykir hafa tekist einstaklega vel.

Ferðin hófst á Hólmavík 26. október í kjölfar Fjórðungsþings Vestfirðinga og opnaði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra sýninguna að viðstöddum sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum og öðrum gestum. Fimmtudaginn 31. október var sýningin opnuð í Félagsheimilinu á Patreksfirði og lokasýningin var svo laugardaginn 2. nóvember í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Áætlað er að á milli 500 til 600 manns hafi komið og séð sýninguna.

Sýningin kom þeim sem mættu skemmtilega á óvart en þar voru umhverfismálin sett fram á auðskiljanlegan hátt. Á sýningunni var líka að finna fróðleik um rafmagnsframleiðslu með vindmyllum, allt um hvernig hægt er að útbúa hjól til að nota allt árið um kring, hægt var að prufa rafmagnshjól í boði Fjallakofans og prufa Hybrid bíl í boði Heklu.   Landinn mætti á svæðið og verður frásögn frá sýningunni á Rúv á næstu vikum.

Sýningin gekk vonum framar en við uppsetningu svona sýningar þarf mörg handtök bæði við uppsetningu og niðurtöku. Vestfjarðastofa vill þakka Vesturbyggð, Bolungarvíkurkaupstað, Ísafjarðarbæ, Strandabyggð og Súðavíkurhreppi sérstaklega fyrir aðstoðina. Sveitarstjórar Strandabyggðar og Súðavíkurhrepps fá svo sérstakar þakkir þar sem þeir lögðu sjálfir mikinn tíma og ómetanlega aðstoð í sýninguna.