Fara í efni

Stuðningur við samfélagsdrifin fyrirtæki á vefviðburði MERSE

Fréttir MERSE

Þann 27. nóvember hélt MERSE alþjóðlegan vefviðburð þar sem þátttakendur frá átta löndum komu saman til að ræða hagnýtar leiðir, fjármögnun og samstarfslíkön sem styrkja þverfaglegt samstarf og efla samfélagsdrifin fyrirtæki. Fyrirlesarar frá Svíþjóð og Írlandi sýndu hvernig slík fyrirtæki geta umbreytt áskorunum í tækifæri fyrir samfélög þvert á landamæri.

Fundarstjórn var í höndum kollega okkar í MERSE Pelle Persson frá Coompanion í Svíþjóð, sem leiddi þátttakendur í gegnum fróðlega dagskrá þar sem fimm fyrirlesarar frá Svíþjóð og Írlandi deildu reynslu sinni:

Sara Wallentin frá Coompanion kynnti NOI – Node for Inclusion verkefnið, sem miðar að því að brúa bil á vinnumarkaði með því að tengja atvinnurekendur við fólk sem stendur oft utan vinnumarkaðar. Með ráðningastuðningi, félagslegum innkaupum og þjálfun hjálpar NOI fyrirtækjum að efla fjölbreytni og styðja við staðbundið efnahagslíf.

Effie Kourlos frá sveitarfélaginu Östersund fjallaði um hvernig sveitarfélagið vinnur með samfélagsdrifnum fyrirtækjum í gegnum svokallaða nýsköpunar- og samstarfssamninga (IOPs). Hún kynnti meðal annars verkefnið Hej Främling, sem hefur skapað tækifæri fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd til að hitta íbúa, mynda tengsl og komast inn á vinnumarkaðinn og þannig láta inngildingu styðja við samfélagslegan vöxt.

Micheál Ó Conghaile frá Údarás na Gaeltachta á Írlandi, sem einnig er kollegi okkar í MERSE, kynnti starfsemi samfélagsþróunardeildar Údarás sem styður við 35 samvinnufélög á gelískum málsvæðum. Hann deildi níu dæmum um farsæla samfélagsdrifna nýsköpun, allt frá verkefnum á sviði líffræðilegrar fjölbreytni til sorpsamlags.

Anne Graham frá Western Development Commission fjallaði um mikilvægi fjármálatækja, svo sem samfélagslána, sem gera félagslegum fyrirtækjum kleift að hefja starfsemi og vaxa. Hún lagði áherslu á uppbyggingu öflugs stuðningskerfis og deildi góðum starfsháttum frá Írlandi.

Clare Allen frá Rethink Ireland kynnti hugmyndina um félagslega nýsköpunarmiðstöðvar (social innovation hubs), þar sem áhersla er lögð á nýjar lausnir og samstarfslíkön sem styrkja samfélagsdrifinn atvinnurekstur.

Fyrir hverja – og hvers vegna

Vefnámskeiðið var ætlað stefnumótendum, fulltrúum sveitarfélaga, samfélagsfrumkvöðlum og stoðstofnunum á svæði Norðurjaðars og norðurslóða. Fyrir þátttakendur bauð viðburðurinn upp á hagnýtar leiðir til að virkja samfélagsdrifin fyrirtæki í staðbundinni þróun, sagt var frá árangursríkum verkefnum á sviði samfélagslegrar nýsköpunar líkt og samstarfsverkefni sem draga úr félagslegri einangrun og skapa störf.

Eigi þarf að örvænta fyrir þá sem misstu af vefviðburðinum því hægt er að nálgast upptöku hér.