Fara í efni

Sterkar Strandir framlengt um eitt ár

Fréttir

Stjórn Byggðastofnunar hefur ákveðið að framlengja verkefnið Sterkar Strandir um eitt ár, til loka árs 2024, en Sveitarstjórn Strandabyggðar óskaði eftir framlengingunni. Tilgangurinn er að vinna áfram að þeim framfaramálum sem íbúar hafa skilgreint í verkefnisáætlun en einnig að styðja við frumkvæðisverkefni sem horfa til framfara að því marki sem kraftar verkefnisins leyfa.

Þetta var kynnt á árlegum íbúafundi sem haldinn var undir merkjum Sterkra Stranda miðvikudaginn 15. nóvember sl. Dagskráin samanstóð af nokkrum erindum auk þess sem fundargestum gafst tækifæri til að taka þátt í umræðum um stöðu starfsmarkmiða í verkefnisáætlun og greina hvaða áherslur skynsamlegt væri að vinna sérstaklega með, á viðbótarári verkefnisins í þeim tilgangi að ná sem mestum árangri.

Íbúar Strandabyggðar urðu fyrir miklu áfalli í sumar þegar Snæfell, eigandi rækjuvinnslunnar Hólmadrangs, ákvað að hætta starfsemi sinni á Hólmavík. Þar með misstu um 20 íbúar vinnuna enda Hólmadrangur einn stærsti vinnustaður Strandabyggðar. Miklar áskoranir blasa því við í byggðarlaginu við að treysta atvinnulíf og þar með búsetuskilyrði. Vonir standa til að verkefnið Sterkar Strandir geti þar lagt lóð á vogarskálarnar.

Talsverður ágreiningur hefur verið í samfélaginu í Strandabyggð sem sumir óttast að geti dregið úr framþróun, þátttöku og virkni íbúa í verkefninu og þar með árangri þess. Í máli Kristjáns Þ. Halldórssonar formanns verkefnastjórnar og annars fulltrúa Byggðastofnunar í Brothættum byggðum, kom fram að verkefnisstjórn muni ekki taka afstöðu í þeim málum sem kunna að vera orsök ágreinings en muni á hinn bóginn beina kröftum sínum að framfaramálum og styðja við frumkvæðisverkefni sem horfa til framfara.

Sigurður Líndal er verkefnisstjóri Sterkra Stranda og kynnti hann vinnu samráðshóps um stöðu Strandabyggðar sem sett var á laggirnar í kjölfar lokunar Hólmadrangs fyrr á árinu en auk hans eru þeir Þorgeir Pálsson sveitarstjóri og Stefán Vagn Stefánsson fyrsti þingmaður kjördæmisins í hópnum. Til stendur m.a. að setja á stofn s.k. Strandanefnd og bora eftir heitu vatni á Gálmaströnd. Þorgeir Pálsson sveitarstjóri kynnti einnig áform um nýja hótelbyggingu á Hólmavík sem ætlað er að styrkja stoðir atvinnulífs í Strandabyggð og Magnús Bjarnason frá Vestfjarðastofu kynnti niðurstöður innviðagreiningar á Ströndum og smávirkjanakosti í Strandabyggð.

Af nýsköpunarverkefnum sem fengið hafa styrk úr Frumkvæðissjóði Sterkra Stranda, má nefna Fine Foods Íslandica sem snýr m.a. að fullvinnslu á þara. Einnig Galdur brugghús, Galdrasetrið og ný fótaaðgerðarstofa svo nokkuð sé nefnt.

Byggðaþróunarverkefnið Sterkar Strandir hófst á árinu 2020 undir merkjum Brothættra byggða