Fara í efni

Staðreyndir um rafmagn á Vestfjörðum

Fréttir

Staðfest er að aukin eftirspurn verður eftir orku á Vestfjörðum vegna fjölbreyttrar starfsemi, svo sem kalkþörungavinnslu, fiskeldis, ferðaþjónustu og fjölgunar íbúa, samhliða auknum umsvifum í öðrum atvinnugreinum. Slík uppbygging er háð því að afhendingaröryggi og aðgangur að aukinni orku sé fyrir hendi.

Nýr tengipunktur við meginflutningskerfi raforku skiptir lykilmáli fyrir möguleika á hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum og er forsenda aukinnar orkuframleiðslu á svæðinu. Landsnet áætlar að kostnaður við tengipunktinn, sem staðsettur verður innst í Ísafjarðardjúpi, verði um fimm milljarðar króna og að framkvæmdin borgi sig upp á 40 árum. Í  nýjum skýrslum frá Landsneti kemur fram að án Hvalárvirkjunar eru ekki taldar markaðslegar forsendur fyrir uppbyggingu á nýju tengivirki og nýju flutningskerfi raforku á vegum Landsnets til og frá Vestfjörðum.

Helsti vandi Vestfirðinga í raforkumálum er afhendingaröryggi orkunnar en Vestfirðir eru ekki sjálfbærir í orkuframleiðslu þar sem aðeins 60% af orku sem notuð er í fjórðungnum er framleidd á svæðinu. Valkostir til að auka afhendingaröryggi eru fleiri varaflsstöðvar, fjölgun virkjana eða hringtenging raforku.

Vestfjarðastofa hefur látið taka saman staðreyndir um rafmagn á Vestfjörðum sem finna má hér.  Með því vill Vestfjarðastofa leggja sitt lóð á vogarskálar hófstilltrar umræðu um málefni sem við teljum að skipti Vestfirði miklu máli til framtíðar.

Staðreyndir um rafmagn á Vestfjörðum