Fara í efni

Skýrsla um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar afhent

Fréttir Verkefni
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, mætti í stað Aðalsteins Óskarssonar, J…
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, mætti í stað Aðalsteins Óskarssonar, Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri í Stykkishólmi, Guðveig Eyglóardóttir formaður stjórnar SSV, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, orku og loftslagsráðherra, Jóhanna Ösp Einarsdóttir formaður stjórnar FV, Páll S. Brynjarsson framkvæmdastjóri SSV, Erla Friðriksdóttir formaður Breiðafjarðarnefndar.

Skýrslan sem ráðherra fékk afhenta innihélt í raun 5 afurðir verkefnis sem hófst á því að gerð var Stöðugreining fyrir Breiðafjarðarsvæðið, unnin af Jakob Johann Stakowski starfsmanni Náttúrustofu Vesturlands. Sú skýrsla var afurð verksamnings sem þáverandi umhverfis og auðlindaráðuneyti gerði við Fjórðungssamband Vestfirðinga (FV) og Samtök Sveitarfélaga á Vesturlandi (SSV) um forsendugreiningu fyrir verndun Breiðafjarðar og tengsl við byggðaþróun.  Í framhaldi af þeirri vinnu fengu landshlutasamtökin tvö KPMG til að framkvæma sviðsmyndagerð fyrir Breiðafjörð sem gaf hugmyndir um hvert skyldi stefna. Þá tók við vinna Vífils Karlssonar hagfræðings hjá SSV sem tók saman skýrslu um hagrænt virði Breiðafjarðar þar sem leitast var við að meta mögulega verðmætasköpun sem hlýst af nýtingu náttúruauðlinda við Breiðafjörð. 

Við tók síðan vinna stýrihóps umhverfis, orku og loftslagsráðherra sem skipaður var vorið 2022 til að vinna  tillögur á grundvelli þeirra greininga sem unnar höfðu verið. Að lokum voru haldnir íbúafundir umhverfis Breiðafjörð þar sem niðurstöður vinnunnar og tillögurnar voru kynntar og ræddar. 

Fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga sat Jóhanna Ösp Einarsdóttir í stýrihóp ráðherra og Aðalsteinn Óskarsson annaðist verkefnisstjórn þess ásamt Páli Brynjarssyni frá SSV. Á síðu verkefnisins má finna allar skýrslur sem vísað er í. 

Öll þessi vinna var síðan tekin saman í eina skýrslu sem eins og áður sagði var skilað til ráðherra í Flatey. Auk þess sem ráðherra voru afhentar þessar tillögur staðfesti ráðherra stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Flatey sama dag og fundaði að lokum með Breiðafjarðarnefnd.