Fara í efni

Skýrsla Landverndar um flutningsmál raforku á Vestfjörðum

Fréttir

Á undanförnum 10 árum, rúmlega, hafa íbúar á Vestfjörðum horft til þess að virkjun Hvalár í Ófeigsfirði verði hornsteinn að öflugra raforkukerfi á svæðinu og að með því skrefi verði Vestfirðir á pari við aðra landshluta þegar horft er til afhendingaröryggis og mögulegrar framþróunar í atvinnumálum.  Allann þann tíma hafa sveitarstjórnarmenn ítrekað ályktað á þá leið að tengja skuli Hvalárvirkjun inn á raforkukerfið á norðanverðum Vestfjörðum.

 

Ritaðar hafa verið ótal skýrslur um stöðu afhendingaröryggis og mögulegar úrbætur.  Allar hafa þær vísað til þess að stærsti ókosturinn við raforkukerfi Vestfjarða sé annarsvegar löng geislatenging við landskerfið og hinsvegar lágt hlutfall raforku framleiddrar á svæðið.  Jafnframt hefur það ítrekað verið fullyrt í þessum skýrslum að tenging Hvalárvirkjunar til Ísafjarðar sé kerfislega besta lausnin.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga er því efnislega sammála skýrsluhöfundum, sem gerðu skýrslu Landverndar um raforkukerfi Vestfjarða, að tenging Hvalárvirkjunar suður í Kollafjörð geri lítið sem ekkert til að bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum.  Enda líta sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum einungis á slíka tengingu sem hluta af stærra verkefni, þe. hringtengingu.  Ekki verður fallist á það sem lokaútgáfu af tengingu.

Hinsvegar er vandséð með hvaða hætti geti talist réttlætanlegt að ætla Landsneti að ráðast í tugmilljarða framkvæmdir og lagningu allt að 190km af jarðstrengjum á Vestfjörðum, þar sem fyrirsjáanlegt er að slíkar framkvæmdir skila fyrirtækinu litlum sem engum nýjum tekjum.  Flutningur raforku frá Hvalárvirkjun og mögulegum öðrum tveimur virkjunum á því svæði mun á hinn bóginn auka tekjur Landsnets um 5-700 milljónir árlega og getur auðveldlega staðið undir umtalsverðum kostnaði sem fyrirsjáanlegur er við uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða.​

Undirbúningsvinna vegna byggingar Hvalárvirkjunar hefur verið samkvæmt þeim reglum sem gilda í landinu.  Virkjunin fór í gegnum Rammaáætlun án mótstöðu og skipulagsvinna í Árneshreppi er langt komin vegna fyrirætlananna.  Mikil umræða hefur því átt sér stað um fyrirhugaða framkvæmd og í flesta staði málefnaleg.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga stendur heilshugar á bak við öll þau áform sem styrkja innviði samfélags á Vestfjörðum.  Þar með er talið virkjun Hvalár, að því gefnu að tenging hennar verði til þess að bæta raforkugæði á svæðinu.