Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur tilkynnt niðurstöður úr jarðhitaleitarátaki sem opnað var í vor. Markmið átaksins er að stuðla að aukinni nýtingu jarðhita til húshitunar á svæðum þar sem nú er notast við rafmagn eða olíu. Sjö styrkir voru veittir til verkefna á Vestfjörðum. Orkubú Vestfjarða fékk styrk til sex verkefna: á Patreksfirði, Ísafirði, Bolungavík og Suðureyri og Strandabyggð fékk styrk vegna eins verkefnis. Styrkirnir voru veittir vegna varmageymslu, rannsóknaborana og varmadæla og má sjá nánar á meðfylgjandi mynd.
Alls bárust 48 umsóknir í átakið frá sveitarfélögum, orkufyrirtækjum og aðilum í þeirra umboði. Verkefnin voru fjölbreytt en heildarkostnaður verkefna sem sótt var um nam 6.093 m.kr. og sótt var um 4.082 m.kr. í styrki. 18 verkefni hlutu styrk: 8 verkefni sem snúa að jarðhitarannsóknum, 8 verkefni sem tengjast uppsetningu varmadælna og 2 verkefni sem miða að uppbyggingu varmageymslna.
Mögulegur ávinningur af verkefnunum er verulegur. Með frekari borunum, varmadælum og varmageymslum gæti allt að 80 GWh af vetrarraforku losnað á næstu árum. Þá gæti árangur í jarðhitaleit bætt við um 40 GWh.
Mat umsókna var í höndum Loftlags- og orkusjóðs í samvinnu við Umhverfis- og orkustofnun.