Fara í efni

Síðustu forvöð í nokkra sjóði!

Fréttir

Á morgun, 15. febrúar, rennur út umsóknarfrestur í nokkra sjóði. Má þar fyrst nefna Tækniþróunarsjóð sem er með nokkrar ólíkar styrkjaáætlanir eins og markað, sprota og vöxt. Tækniþróunarsjóður heyrir undir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og hlutverk hans er að styðja þróunarstarf og rannsóknir á sviði tækniþróunar sem miða að nýsköpun í íslensku atvinnulífi.

Æska vors lands er sannarlega ekki undan skilin í styrkjagalleríinu og er á morgun síðasti dagurinn til að sækja um í æskulýðssjóð og  sprotasjóð leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hlutverk æskulýðssjóðs er að styrkja verkefni á vegum æskulýðsfélaga og æskulýðssamtaka. En sprotasjóður styrkir verkefni sem stuðla að þróun og nýjungum í skólastarfi  í leik-, grunn- og framhaldsskólum.

Þá rennur út umsóknarfrestur í VIRK Starfsendurhæfingarsjóð. Þar er hægt að sækja um fyrir verkefni sem auka fjölbreytni og framboð úrræða í starfsendurhæfingu og styrki til rannsókna sem stuðla að uppbyggingu og auka við almenna þekkingu á starfsendurhæfingu á Íslandi.

Samfélagssjóður Orkubús Vestfjarða er einnig með lokadag fyrir umsóknir á morgun. Verkefnin sem sótt er um fyrir þar þurfa að uppfylla skilyrðin að þau séu til eflingar vestfirsku samfélagi, en að öðru leyti er umsækjendum gefnar nokkuð frjálsar hendur.

Við hvetjum ykkur til að fylgjast með umsóknarfrestum í ólíka sjóði á heimasíðu Vestfjarðastofu, en þá er að finna á hægri væng síðunnar undir liðnum á döfinni.