Fara í efni

Ríkir búsetufrelsi á Íslandi?

Fréttir

Byggðaráðstefnan 2023 var haldin í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ í síðustu viku undir yfirskriftinni Búsetufrelsi? Það voru Byggðastofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanesbær sem stóðu að ráðstefnunni, sem var öll hin glæsilegasta. Vestfirðingar nutu sín þar vel, en Guðmundur Gunnarsson fyrrverandi Bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar var fundarstjóri, Iða Marsibil Jónsdóttir, fyrrum forseti bæjarstjórnar Vesturbyggðar, núverandi sveitarstjóri Grímsnes og Grafningshrepps var með erindi og það var líka okkar eina Sirrý, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir sem var með kraftmikið erindi um óstaðbundin störf, þar sem hún velti því upp hvort fyrirkomulag þeirra sé í raun gagnlegt á landsbyggðinni.

Dagskrá þingsins var afar áhugaverð og óhætt að segja að þar hafi verið saman komið mikið þungavigtarfólk í rannsóknum á búsetufrelsi og byggðafestu hér á landi. Til að mynda Þóroddur Bjarnason, ritstjóri, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og rannsóknaprófessor í byggðafræði við Háskólann á Akureyri sem var með erindi undir sömu yfirskrift og nýleg bók sem hann ritstýrði Byggðafesta og búferlaflutningar á Íslandi. Um byggðafestu fjallaði líka Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands og lagði hún sérstaka áherslu á byggðafestu innflytjenda.

Þóroddur Bjarnason. Mynd: Byggðastofnun 

Margir staðir á landsbyggðinni hafa lengi glímt við áskoranir í íbúaþróun og þá oft vegna viðvarandi fólksfækkunar, en það eru ekki allir að fást við slíkt og fjallaði Kjartan Már Kjartansson, sveitarstjóri Reykjanesbæjar um þær áskoranir sem fólgnar eru í hraðri íbúafjölgun.

Saga til næsta bæjar – búferlaflutningar og slúður var yfirskrift erindis Grétu Bergrúnar Jóhannesdóttir, kynjafræðings og doktorsnema við Háskólann á Akureyri. Í erindinu fjallaði hún um rannsókn sína á slúðri og samfélagslegum áhrifum þess í litum samfélögum og benti meðal annars á að meira sé í raun búið að rannsaka togkraft þéttbýlis í stað ýtiafls minni staða. Af öðrum afar áhugaverðum erindum má nefna Félagssálfræði jákvæðs byggðabragðs: Eru sveitarfélög hluti af sjálfsmynd Íslendinga? sem Dr. Bjarki Þór Grönfeldt frá Rannsóknasetri í byggða- og sveitastjórnarmálum, Háskólanum á Bifröst, flutti. 

Forsvarsfólk íslenskra háskóla í pallborðsumræðum. Mynd: Byggðastofnun

Þá var á dagskrá málefni sem margir sem búsettir eru á landsbyggði láta sig miklu varða en það er fjarnám og jafnrétti til náms. Þingmaðurinn Líneik Anna Sævarsdóttir opnaði umræðuna sem endaði á pallborði með fulltrúum allra háskólanna á Íslandi.

Margt fleira var á dagskrá og er hægt að nálgast upptökur frá ráðstefnunni á vef Byggðastofnunnar auk þess sem þar er að finna glærukynningar þeirra sem þar tóku til máls.