Fara í efni

Ný brú yfir Þorskafjörð opnuð með pompi og prakt

Fréttir

Í dag var fagnað merkum áfanga í vegagerð á Vestfjörðum er ný brú yfir Þorskafjörð var vígð. Margt var um manninn í Þorskafirðinum á þessum fallega degi og við þetta ánægjulega tilefni. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri fluttu ávörp og fyrst fór yfir hina nýju og glæsilegu brú Jóhanna Ösp Einarsdóttir, formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga. Fjölskylda Jóhönnu var með henni í för og fóru þau ríðandi yfir brúnna á fallega rauðum farskjótum.

Nýja brúin leysir af einbreiða brú sem byggð var fyrir rúmum fjörtíu árum. Margir hafa komið að vegagerðinni og brúarsmíðinni en aðalverktaki var Suðurverk ehf. Verkið sóttist sérlega vel en því átti ekki að ljúka fyrr en um mitt næsta ár og því enn frekari ástæða til fögnuðar í dag – átta mánuðum á undan áætlun. Vegagerð er enn í fullum gangi á svæðinu og í næsta mánuði er fyrirhugað að nýr vegkafli um Teigskóg muni opna og á næstunni klárast einnig nýir vegkaflar á Dynjandisheiði.