Fara í efni

Kuklið fær styrk upp á 15 milljónir

Fréttir
Fine Foods Islandica er eitt þeirra fyrirtækja sem verða í Kuklinu. Mynd af heimasíðu þeirra.
Fine Foods Islandica er eitt þeirra fyrirtækja sem verða í Kuklinu. Mynd af heimasíðu þeirra.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til tíu verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 (aðgerð C.1). Alls bárust 18 umsóknir um styrki að fjárhæð rúmar 371 m.kr. fyrir árið 2024.

Eitt verkefni á Vestfjörðum hlaut styrk að þessu sinni, Kuklið – frumkvöðlasetur matvæla. Það er Fjórðungssamband Vestfirðinga hlýtur styrkinn sem rennur til Kuklsins og er hann að upphæð kr. 15.000.000. Kuklið er í eigu einkaaðila á Hólmavík, en atvinnuástand þar beið mikinn hnekk á síðasta ári eftir lokun rækjuvinnslunnar Hólmadrangs. Kuklið ætlar að breyta og standsetja hluta gamals fiskvinnsluhúss sem Galdur Brugghús nýtir einnig. Með Kuklinu verður boðið upp á matvælaframleiðslu með aðgengi að framleiðslurými og klasamyndun og meðal þeirra sem þar verða með framleiðslu sína eru Fine Foods Islandica og Sveppasmiðjan.

Markmiðið með þessum styrkjum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt var til grundvallar við mat á umsóknum.

Hér má lesa meira um styrkveitingarnar.