Fara í efni

Jólalest Vestfjarða

Fréttir

Núna í desember er í gangi sannkallað frumkvöðla-jólaverkefni á Vestfjörðum sem ber heitið “Jólalest Vestfjarða”.

Vestfjarðastofa kemur að verkefninu sem unnið er í samstarfi við Fab Lab Nýsköpunarsmiðju á Ísafirði og stutt af fjölmörgum fyrirtækjum hér á Vestfjörðum. Markmið Jólalestar Vestfjarða er að sýna í verki mikilvægi nýsköpunar á Vestfjörðum, upphefja list- og verkgreinar og auka sýnileika Vestfjarða.

Verkefnastjóri Jólalestar Vestfjarða er Einar Mikael Sverrisson.

Tökur standa yfir á jólastuttmynd sem frumsýnd verður á milli jóla og nýárs auk þess sem smíðaðir verða 12 jólasleðar og 12 jólapóstkassar, eitt sett fyrir hvert bæjarfélag á Vestfjörðum.

 Jólalestin

Jólasleðarnir eru fullbúnir sýningarsleðar með ljósaborði. Smíðin á sleðunum er í samstarfi við Verkmenntaskólann á Ísafirði, FabLab-smiðjan hannar og sker út sleðana, rafmagnsdeildin útbýr ljósaborðin og málmsmíðadeildin sér um að sjóða saman undirgrindina. Það sama á við um póstkassanna, voru þeir hannaðir og skornir út í FabLab og settir saman af smíðadeild skólans.

póstkassarnir

Hver póstkassi er þar að auki handmálaður af listakonunni Marsibil Kristjánsdóttur á Þingeyri. 

Póstkassar verða staðsettir í hverjum grunnskóla fyrir sig og voru bréf og bréfsefni hönnuð og prentuð sérstaklega fyrir verkefnið.  Börnin skrifa jólasveininum bréf þar sem þau segja frá hvaða góðverk þau ætla að gera í desember auk þess að geta spurt hann spurninga ef eitthvað brennur á þeim. Bréfin eru sett í póstkassann þangað sem hjálparhellur jólasveinsins munu koma og sækja þau og afhenda honum bréfin.  Hvert og eitt barn mun svo fá handskrifað bréf til baka frá sjálfum jólasveininum, auk þess að fá að gjöf jólaóróa sem hannaður var af nemanda í 10.bekk grunnskólans á Suðureyri sem auðvitað var búinn til í FabLab.

Fullbúnir sleðar munu svo gleðja börn og fullorðna þegar nær dregur jólum þegar þeim verður rennt í gegnum bæi Vestfjarða með tilheyrandi gleði, töfrum og skemmtun.

Það er svo sannarlega nóg um að vera þegar kemur að Jólalest Vestfjarða og við hlökkum til að sjá þetta flotta verkefni verða að raunveruleika.

Sjávarklasinn á Vestfjörðum er einn helsti bakhjarl verkefnisins en ástam honum eru styrktaraðilar eftirfarandi;

 • Klofningur
 • Íslandssaga
 • Oddi
 • Jakob Valgeir
 • Arna 
 • Húsasmiðjan 
 • Kereces
 • Orkubú Vestfjarða
 • Arnarlax
 • Vestfjarðastofa
 • Fiskvinnslan drangur 
 • Íslandsbanki
 • Arctic fish
 • Fablabsmiðja Ísafjörður 
 • Nettó 
 • Landsbankinn
 • Íslenskt sjávarfang 
 • Kalkþörungafélagið

Samfélagsmiðla Jólalestar Vestfjarða má finna á Facebook og Instagram og hvetjum við ykkur til að fylgjast með.