Fara í efni

Íbúaþing í Kaldrananeshreppi

Fréttir

Dagana 4. og 5. október verður íbúaþing haldið í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Kaldrananeshreppur er sextánda og jafnframt nýjasta þátttökubyggðarlagið í byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir.

Íbúaþingið er upphafið að fimm ára samstarfsverkefni Vestfjarðastofu, Byggðastofnunnar og Kaldrananeshrepps. En íbúar koma saman, ræða hagsmunamál byggðarlagsins og móta áherslur í verkefninu. Það er því mikilvægt að íbúar og aðrir velunnarar Kaldrananeshrepps fjölmenni á íbúaþingið og taki virkan þátt strax frá upphafi. Á íbúaþinginu er svokölluð open space aðferðafræði notuð þar sem engin fyrirfram mótuð dagskrá er fyrir utan upphaf þings og endi.

Sigurborg Kr. Hannesdóttir hjá Ildi mun stýra íbúaþinginu, en fulltrúar verkefnisstjórnar verða henni innan handar við framkvæmd og undirbúning.

Íbúaþingið hefst kl. 11:00 laugardaginn 4. október og því lýkur með veislukaffi kl. 15:00 sunnudaginn 5. október.

Í kjölfar þingsins verður verkefnisáætlun mótuð og gera má ráð fyrir að gangi sú vinna vel, verði opnað fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Brothættra byggða í byggðarlaginu strax í ársbyrjun 2026. Á íbúaþinginu gefst þannig einstakt tækifæri til að hafa áhrif á mótun verkefnisins í Kaldrananeshreppi.

Byggðaþróunarverkefnið Brothættar byggðir í Kaldrananeshreppi byggir á öflugu samstarfi íbúa, sveitarfélags, Vestfjarðastofu og Byggðastofnunar. Það er því mjög mikilvægt að sem flestir komi og leggi orð í belg hvort sem það er hluta úr degi eða báða daga. Núna er tækifærið fyrir íbúa og aðra að stuðla að eflingu samfélagsins.

 

Skoða á viðburðardagatali