Fara í efni

Íbúakönnun 2020 - Helstu niðurstöður fyrir Vestfirði

Fréttir

Birt hefur verið ný skoðanakönnun meðal íbúa landsins á búsetuskilyrðum, hamingju og viðhorfi til síns sveitarfélags. Að könnuninni stóðu landshlutasamtök sveitarfélaga á landinu ásamt Byggðastofnun og var hún gerð á íslensku, ensku og pólsku í september og október síðastliðnum. Niðurstöðurnar byggja á svörum frá 10.253 þátttakendum. Þetta er í fyrsta sinn sem svo víðtæk könnun um þessi efni nær til allra svæða landsins og er markmiðið að hún verði eftirleiðis gerð á 2-3 ára fresti og geti verið sveitarfélögum og stjórnvöldum mikilvægt tæki í búsetu- og byggðaþróun. Vestfjarðastofa fyrir hönd Fjórðungssambands Vestfirðinga kemur að gerð könnunarinnar. 

Niðurstöður fyrir Vestfirði
Íbúasvæði Vestfjarða eru þrjú í könnuninni, þ.e. sunnanverðir Vestfirðir, norðanverðir Vestfirðir, Strandir og Reykhólar (saman). Heildarfjöldi svara á Vestfjörðum var 979. Íbúar á þessum svæðum voru einnig spurðir í hliðstæðri könnun árið 2017.

Viðhorf til sveitarfélags
Jákvæðastir Vestfirðinga í afstöðu til síns sveitafélags voru íbúar á Ströndum og Reykhólum. Neikvæðastir í afstöðu til síns sveitarfélags voru íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum en munurinn er þó lítill og ekki marktækur.

Búsetuskilyrði
Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum eru meðal þeirra ánægðustu í könnuninni með afþreyingu, mannlíf, náttúru, loftgæði, umferð, málefni útlendinga, menningu, málefni aldraða, dvalarheimilaþjónustu, málefni fatlaðra og möguleika til framfærslu. Friðsæld fær einnig góða einkunn þeirra. Skipulagsmál komu einna verst út á norðanverðum Vestfjörðum, sem og rafmagnsmál, grunnskólamál, farsímasamband og almenningssamgöngur en það síðastnefnda á raunar við um öll íbúasvæðin á Vestfjörðum.

Íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum eru meðal þeirra ánægðustu með atvinnuöryggi, friðsæld og loftgæði en þeir voru óánægðastir allra á landinu í könnuninni með vegakerfið, umhverfismál, sorpmál, rafmagnsmál, nettengingar, leikskólamál, framboð leiguíbúða, íbúðamál, grunnskólamál, málefni fatlaðra, dvalarheimilaþjónustu, ásýnd og málefni aldraðra.

Íbúar Stranda og Reykhóla voru meðal þeirra ánægðustu með heilsugæslu, mannlíf og náttúru en óánægðastir voru þeir með málefni á borð við íþróttir, íbúðaframboð, framfærslu, framhaldsskólamál, farsímasamband, atvinnuúrval og almenningssamgöngur, líkt og fyrr segir.

Í heildarstigagjöf fyrir landsvæðin 24 og þau 40 búsetuskilyrði sem spurt var um voru norðanverðir Vestfirðir í 12. sæti, Strandir og Reykhólar í 22. sæti og sunnanverðir Vestfirðir í 24. og neðsta sæti listans.

Breytingar frá könnun árið 2017
Þegar svör úr könnuninni nú voru borin saman við hliðstæða könnun árið 2017 sjást breytingar á viðhorfi íbúa á Vestfjörðum í ýmsum málaflokkum. Frá 2017 telja íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum að dvalarheimilaþjónusta, þjónusta við fatlaða og vegakerfið hafi versnað mest en leikskólaþjónusta batnað mest. Unglingastarf og grunnskólaþjónusta eru þau atriði sem hafa aukist mest að mikilvægi milli kannana en almenningssamgöngur og skipulagsmál drógust mest saman að mikilvægi.

Íbúar á norðanverðum Vestfjörðum telja að atvinnuöryggi og leikskólaþjónusta séu þeir þættir sem hafi batnað mest frá könnuninni árið 2017 en skipulagsmál hafi versnað mest. Vægi friðsældar og nettenginga hefur aukist mest á þessum árum en á sama tíma dregið mest úr áherslu á almenningssamgöngur og atvinnuúrval.

Íbúar á Ströndum og Reykhólum telja tónlistarskóla og nettengingar hafa batnað mest að gæðum frá árinu 2017 en að vöruverð og vöruúrval hafi versnað mest á þessum tíma. Þeir telja að mikilvægi þjónustu við útlendinga hafi aukist mest frá 2017 en áhersla þeirra á almenningssamgöngur og skipulagsmál hefur dregist mest saman á þessum tíma.

Hér má finna niðurstöður könnunarinnar í heild.