Fara í efni

Íbúafundur í Árneshreppi

Fréttir Áfram Árneshreppur!
Ljósmynd Kristján Þ Halldórsson
Ljósmynd Kristján Þ Halldórsson

Fimmtudaginn 20. júní var haldinn íbúafundur í félagsheimilinu í Trékyllisvík. Fundurinn var haldinn undir merkjum verkefnisins Áfram Árneshreppur, sem er heiti á þátttöku Árneshrepps í verkefninu Brothættar byggðir með aðkomu Byggðastofnunar. Verkefnið hefur staðið síðan í ársbyrjun 2018 og hófst raunar með íbúaþingi sumarið 2017, en því lauk um síðustu áramót. Við tekur svipað starf, en í umsjón heimamanna sjálfra undir forystu nýskipaðrar framtíðarnefndar Árneshrepps.
Góð mæting var á fundinn og líflegar umræður. Arinbjörn Bernharðsson, formaður verkefnisstjórnar bauð gesti velkomna, en að því loknu fór Skúli Gautason, verkefnisstjóri, yfir ýmis verkefni sem unnin hafa verið undir merkjum Áfram Árneshrepps. Kristján Þ Halldórsson frá Byggðastofnun flutti ávarp en síðan tóku við umræður um fjóra málaflokka á borðum, þeir voru atvinnumál, skólamál, húsnæðismál og jarðhiti.

Talsverð innviðauppbygging hefur átt sér stað í Árneshreppi að undanförnu og vonast er til að hægt verði að ljúka þrífösun rafmagns í sveitarfélaginu í sumar og samhliða henni er lagður ljósleiðari í nær öll hús, enda fékkst til þess styrkur úr Fjarskiptasjóði. Framkvæmdum við Norðurfjarðarhöfn er að ljúka, en þær miða einkum að því að auka öryggi ferðamanna og eru unnar með styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Íbúum hefur fjölgað nokkuð í Árneshreppi að undanförnu og nú eru komin tvö börn á grunnskólaaldri. Verið er að vinna að útfærslu á skólahaldi fyrir þau og stefnt er að því að rekstur Finnbogastaðaskóla hefjist að nýju 2025.

Eins og oft áður eru samgöngumálin efst í huga íbúa í Árneshreppsbúa og er mjög þrýst á stjórnvöld að seinka ekki veglagningu yfir Veiðileysuháls, enda er er allt tilbúið fyrir þá framkvæmd og hægt að fara í útboð strax ef fjármagn fæst í framkvæmdina.

Hér má sjá myndasýningu Skúla Gautasonar verkefnisstjóra

Hér má sjá glærukynningu Kristjáns Þ Halldórssonar frá Byggðastofnun