Fara í efni

Hjörleifur leiðir RECET hjá Vestfjarðastofu

Fréttir

Fyrr í mánuðinum kom Hjörleifur Finnsson til starfa hjá Vestfjarðastofu sem verkefnisstjóri umhverfis- og loftslagsmála. Eitt af verkefnum hans er umsjón með RECET eða Rural Europe for the Clean Energy Transition sem fer formlega af stað þann 1. október n.k. Verkefnið er stórt í sniðum og hlaut það fyrr á árinu styrk úr LIFE styrktaráætlun Evrópusambandsins upp á 1.5 milljón evra eða um 225 milljónir íslenskra króna. Verkefnið er leitt af Íslendingum en það er samstarfsverkefni fjölmargra sveitarfélaga í fimm löndum og stendur það yfir í þrjú ár.

RECET er ætlað að efla getu sveitarfélaga á þátttökusvæðunum til að takast á við orkuskipti og smíða orkuskiptaáætlanir í samstarfi við hagsmunaaðila og atvinnulíf. Í verkefninu verður stuðst við reynslu og aðferðir Energiakademiet við mótun og þróun aðgerða til orkuskipta á hverju landsvæði fyrir sig. Energiakademiet er á eyjunni Samsø í Danmörku og hefur það áratuga reynslu af því að þróa og innleiða svæðisbundnar orkuskiptaáætlanir.

Á Vestfjörðum taka þátt sveitarfélögin: Ísafjarðabær, Vesturbyggð, Reykhólahreppur og Bolungarvíkurkaupstaður, ásamt fyrirtækjunum Bláma, Orkubúi Vestfjarða, Odda HF og Háskólasetri Vestfjarða sem tengjast verkefninu í gegnum Vestfjarðastofu. Íslensk Nýorka og Eimur leiða verkefnið hér á landi og eru í samstarfi við Vestfjarðastofu og Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE). Utan Íslands koma einnig að RECET: Sveitarfélagið Postojna í Slóveníu, Blekinge sýsla í Suðaustur-Svíþjóð og sveitarfélög á eyjunni Menorca á Spáni.

Ef fleiri sveitarfélög, eða aðrir hagsmunaaðilar, hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu með einum eða öðrum hætti eru þau eindregið hvött til að hafa samband við verkefnisstjóra á hjorleifur@vestfirdir.is