Fara í efni

Haustþing byrjar vel

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga

Það var fríður hópur sveitastjórnarmanna á Vestfjörðum sem mætti til Hólmavíkur í morgun í fallegu veðri. 
Hafdís Gunnarsdóttir formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga ræddi um kraft Vestfirðinga þegar fiskeldisleyfi voru afturkölluð síðasta haust og samstöðu allra við að leiðrétta þann gjörning. Þarna sást hversu vel Vestfirðingar geta unnið saman og hvað krafturinn verður mikill þegar allir leggjast á eitt.

Samgöngur eru lykilmálið í fjórðungnum og mikilvægt að jarðgangnaáætlun verði endurskoðuð auk þess að fara yfir raforkumálin til framtíðar.

Haraldur Benediktsson, þingmaður fór vel yfir það sem er í bígerð á alþingi og þar fóru hæst störf fjárlaganefndar og samgöngumál.  Málefni námsmanna af landsbyggðinni og hjúkrunarheimla sem þingið er að vinna að úrbótum á var einnig til umfjöllunar.

Í kjölfarið komu fyrirspurnir um það sem brennur á fólki í fjórðungnum en þar ber hæst frestun vegaframkvæmda á Veiðileysuhálsi í Árneshreppi og innstrandavegi.  Háttvirtur þingmaður Haraldur Benediktsson sagði þessar seinkanir vera í fullkomnu ósamræmi við það sem þingmenn NV kjördæmis töldu vera vilja Alþingis. 

Þá var komið að hádegishléi og Strandamenn stóðu vel undir væntingum með gómsætt hlaðborð fyrir gesti þingsins.