Fara í efni

Gervigreind og miðlunarmál á haustfundi atvinnuráðgjafa

Fréttir

Haustfundur atvinnuráðgjafa var haldinn á Courtyard by Marriott í Reykjanesbæ s.l. miðvikudag undir yfirskriftinni Gervigreind eða gerfigreind? Þar var fjallað um gervigreind, miðlunarmál og ýmis byggðamál. Fimm starfsmenn Vestfjarðastofu sóttu fundinn, en gott samstarf atvinnuráðgjafa landshlutasamtakanna er mikilvægt stoðkerfi atvinnumála í landinu. Þá er ekki síður mikilvægt að sækja fundi þar sem bæta má þekkingu og færni starfsfólks í síbreytilegu atvinnulandslagi nútímans.

Meðal þeirra sem tóku til máls var Gunnar Ólafsson hjá Blábankanum á Þingeyri þar sem hann fjallaði um gervigreind til byggðaþróunar, en í burðarliðnum er viðskiptahraðall undir sömu formerkjum á Þingeyri dagana 29.nóvember-1.desember n.k. Í málefnum gervigreindar steig einnig á stokk Brynjólfur Borgar Jónsson, frá Datalab sem fjallaði um framfarir gervigreindar og hagnýtingu hennar í stjórnsýslu. Í miðlunardeildinni kom Arnar Gunnarsson, frá Digido sterkur inn og kynnti atvinnuráðgjöfum allt það nýjasta í stafrænni markaðssetningu. Boðið var upp á fjölmörg fleiri gagnleg erindi um hin ýmsu verkefni sem verið er að vinna í ólíkum landshlutum og fórum við hjá Vestfjarðastofu af fundinum með gagnlegar upplýsingar sem nýtast okkur vel í starfi.

Þá var boðið upp á skoðunarferð þar sem farið var í Byggðasafnið á Garðskaga þar sem forstöðumaður safna í Suðurnesjabæ Margrét I. Ásgeirsdóttir tók á móti hópnum. Safnið er alhliða byggða- og sjóminjasafn og er þar að finna mikið vélasafn auk þess sem þar er búið að setja upp virkilega skemmtilega safnabúð sem byggð er á Verzlun Þorláks Benediktssonar sem rekin var í Garði í rúm 50 ár.