Fara í efni

Galdrafár á Ströndum

Nornin frelsuð á Kópnesi. Ljósm. Jón Jónsson
Nornin frelsuð á Kópnesi. Ljósm. Jón Jónsson

Um helgina var haldin mikil hátíð á Ströndum. Þar kom saman galdrafólk, víkingar, tónlistarfólk og húðflúrmeistarar. Dagskráin var fjölbreytt og gátu flestir fundið eitthvað við sitt hæfi.

Hátíðin var sett á föstudegi, en um kvöldið var heilmikil skrúðganga í gegnum Hólmavík endilanga sem endaði með áhrifamiklum viðburði við Kópnesið. Þar var kveiktur eldur og nornin frelsuð úr fjötrum. Í ylnum af eldinum var brostið í söng og er óhætt að segja að það hafi skapast áhrifarík stemming. Tónlist var enda snar þáttur í hátíðahöldunum og voru mörg afar áheyrileg tónlistaratriði á dagskrá.

Í Pakkhúsinu á Café Riis voru haldnir fyrirlestrar, þar sem fjallað var um allt mögulegt frá fornri tíð, allt frá sögu húðflúrsins til breytinga í leðurvinnslu í gegnum tíðina, hvernig skal bera sig að við að sverjast í fóstbræðralag og hvernig norrænir menn skynjuðu tímann - og margt margt fleira. Þar voru líka nokkrar vinnustofur þar sem kennd voru hagnýt vinnubrögð, s.s. hvernig mátti magna seið og nota jurtagaldra sér og öðrum til hagsbóta. 

Víkingafélagið Rimmugýgur frá Hafnarfirði kom á hátíðina og sló upp tjaldbúðum. Þar mátti sjá og jafnvel eignast alls kyns fallega muni. Á kvöldin voru tónleikar og síðan var hægt að kneyfa ölið í nýrri gestastofu Galdurs brugghúss. 

Fjöldi húðflúrara var með aðstöðu til að framkvæma list sína og margir gestir. Sérstök áhersla var lögð á galdrastafi, enda henta þeir ákaflega vel til húðflúrunar. Fjöldi gesta og heimamanna lét setja á sig ýmiskonar galdratákn til að ná málum sínum betur framgengt - eða verjast sendingum frá öðrum galdramönnum. 

Hátíðin Galdrafár á Ströndum var ákaflega vel heppnuð og aðsókn með ágætum. Vonast er til þess að hátíðin verði árviss viðburður.