Fara í efni

Fyrsta Ungmennaþing Vestfjarða

Fréttir

Um helgina fór fram fyrsta Ungmennaþing Vestfjarða. Þingið var haldið á Laugarhóli í Bjarnarfirði og þangað komu 33 ungmenni á aldrinum 13-18 ára alls staðar að frá Vestfjörðum.

Þingið var líflegt og fræddust þau þar m.a. um lýðræði, ungmennaráð, hvernig þau geta haft áhrif á samfélagið sitt, samstarf sveitarfélaga á Vestfjörðum og fengu kynningu á styrkjamöguleikum frá Rannís. Þau fengu tækifæri til að vinna að sameiginlegum verkefnum sem tengjast þeirra áhugasviði. Á þinginu skein í gegn að innan hópsins var mikill áhugi fyrir meira samstarfi á milli ólíkra svæða á Vestfjörðum og ungmennin styrktu tengslin sín á milli. Ennfremur fengu þau að koma að endurskoðun á áherslum í Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024, en það er gífurlega dýrmætt að fá fram sjónarmið unga fólksins við þá vinnu.

Að lokum ber að nefna að ungmennin sýndu því eindreginn áhuga að stofna Ungmennaráð Vestfjarða þar sem miklu máli skiptir að ungt fólk fái tækifæri á að koma sínum skoðunum á framfæri. Af því tilefni var kosið í starfshóp skipaðan ungmennum, einu frá hverju sveitarfélagi, sem hefur það að markmiði að vinna að stofnun ungmennaráðs landshlutans í samvinnu við Fjórðungssamband Vestfirðinga.

Vestfjarðastofa þakkar þessum duglega og flotta hópi kærlega fyrir sitt framlag um helgina og Hótel Laugarhóli fyrir góðar móttökur.