Fara í efni

Fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða Sóknaráætlun Vestfjarða
Skjaldborgarskrúðgangan á lokakvöldinu.
Ljósmynd: Hrund Atladóttir
Skjaldborgarskrúðgangan á lokakvöldinu. Ljósmynd: Hrund Atladóttir

Veittar hafa verið viðurkenningar fyrir fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða úr hópi þeirra verkefna sem hlutu styrk úr sjóðnum árið 2020.


Frá vinstri: Bára Melsted, Silja Ástudóttir, Ásta Þórisdóttir og Svanur KristjánssonÍ flokki nýsköpunarverkefna var það Sýslið, miðstöð skapandi greina á Hólmavík sem hlýtur viðurkenninguna Fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða árið 2020.
Hugmyndin með Sýslinu er að stofnsetja miðstöð skapandi greina í gamla sýslumannshúsinu á Hólmavík. Sýslið verkstöð er klæðskerasaumuð lausn sem býður upp á fjölþætta þjónustu sem hefur skort á svæðinu. Sýslið verkstöð er rekið sem einkahlutafélag Ástu Þórisdóttur og Svans Kristjánssonar sem eru eigendur og íbúar hússins. Verkefnið getur haft mikil jákvæð áhrif á skapandi starf á svæðinu með fjölbreytilegri og vel útbúinni aðstöðu og rými fyrir hönnuði og listafólk sem munu auðga starfsemina og menningarlíf á svæðinu með sýningum og viðburðum.
Sýslið er að einnig að vinna að vefnum www.strandir.is sem fer í loftið innan skamms.

Á myndinni til vinstri eru aðstandendur Sýslsins á Hólmavík: Bára Melsted, Silja Ástudóttir, Ásta Þórisdóttir og Svanur Kristjánsson

Hér má sjá stutt myndband sem sýnir brot af því sem hægt er að gera í Sýslinu verkstöð.

Hér má skoða Facebooksíðu Sýslsins. 

Á sviði menningar hlýtur heimildahátíðin Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda viðurkenninguna Fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs 2020. Skjaldborg hefur haldin síðan árið 2007. Skjaldborg frumsýnir íslenskar heimildamyndir, skoðar heimildamyndagerð á heimsvísu og skapar umræðu- og þróunarvettvang fyrir verkefni, leikstjóra og áhugafólk á Íslandi. Hátíðin er eini sérhæfði vettvangurinn fyrir íslenskar heimildamyndir hér á landi og má þess vegna segja að Skjaldborgarbíó á Patreksfirði sé orðið heimili íslenskra heimildamynda enda hjálpar umhverfið og fólkið á staðnum við að skapa aðstæður sem mynda einstaka stemningu og samveru sem verður til á hátíðinni.

Það krefst mikils undirbúnings og góðrar skipulagingar að halda hátíð á borð við  Skjaldborg. Vegna Covid reyndist ekki unnt að halda hátíðina á Patreksfirði á árinu 2020, henni var frestað í tvígang og þrautalendingin var að halda hátíðina í Bíó Paradís í Reykjavík. Tengslin við Patreksfjörð eru þó sterk og verið er að skipuleggja að koma með allar helstu myndir hátíðarinnar og sýna á Patreksfirði síðar á árinu. Þar munu leikstjórar sitja fyrir svörum að sýningum loknum. 

Stjórn Skjaldborgar þegar hátíðin hlaut Eyrarrósina í fyrra. Frá vinstri: Karna Sigurðardóttir, Kristín Andrea Þórðardóttir í miðjunni og Helga Rakel Rafnsdóttir fremstSkjaldborg er handhafi Eyrarrósarinnar 2020.
Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Á myndinni hér til hliðar er stjórn Skjaldborgar við afhendingu Eyrarrósarinnar 2020. Frá vinstri: Karna Sigurðardóttir, Kristín Andrea Þórðardóttir í miðið og Helga Rakel Rafnsdóttir fremst.

 

 

 Hér er hlekkur á heimasíðu Skjaldborgar