Fara í efni

Fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs 2022

Fréttir Uppbyggingasjóður Vestfjarða Sóknaráætlun Vestfjarða

Tvö verkefni hafa fengið viðurkenningu vem fyrirmyndarverkefni Uppbyggingarsjóðs Vestfjarða 2022. Á hverju ári er fyrirmyndarverkefni valið úr hópi þeirra verkefna sem hlutu styrk úr sjóðum. Um er að ræða verkefni sem hafa þótt heppnast einstaklega vel, unnin vel og af heilindum.

Vitalína Kertahússins

Verkefnið Vitalína Kertahússins snerist um að hanna nýja vörulínu, Vitalínu, af 8 mismunandi vitum hringinn í kringum landið. Eigandi Kertahússins og forsvarsmaður verkefnisins er Sædís Ólöf Þórsdóttir.


Aðalsteinn Óskarsson sviðstjóri byggðamála, Sædís Ólöf Þórsdóttir og Magnea Garðarsdóttir verkefnastjóri Uppbyggingarsjóðs

Í lýsingu verkefnis kemur fram að markmið þess hafi verið að auka við vöruframboð Kertahússins, skapa fjölbreytt störf við hönnun, framkvæmd og framleiðslu. Vitakertin eru í tveimur stærðum en hluti verkefnisins snerist einnig um hanna öskjur, límmiða og bæklinga sem segja sögu vitanna, lýsa arkitektúr og sýna staðsetningu þeirra. Vitakertin eru því fullkomin gjöf sem upphefur vestfirska framleiðslu og nýsköpun en markmiðið er að markaðssetja þessi kerti á landsvísu.

Kertahúsið er þessa dagana að opna á nýjum stað í Aðalstræti 22 Ísafirði þar sem að gestum og gangandi gefst kostur á að sjá hvernig kertin eru framleidd ásamt því búa til kerti sjálf.

International Westfjords Piano Festival

Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum (International Westfjords Piano Festival) er tónlistarhátíð með áherslu á píanóleik í hæsta gæðaflokki. Hátíðin var stofnuð af bandaríska píanóleikaranum Andrew J. Yang, sem er tónlistarkennari á Patreksfirði. Árið 2022 var fyrsta árið sem hátíðin var haldin með styrk Uppbyggingarsjóðs og þótti hún einstaklega vel heppnuð.


Skúli Gautason menningarfulltrúi og Andrew J. Yang 

Hugmyndin af verkefninu er að á hverju ári muni píanóleikarar hátíðarinnar bjóða upp á spennandi dagskrá með einstakri listrænni sýn og halda meistaranámskeið fyrir nemendur í samfélaginu sem lýkur með nemendatónleikum. Á þessu upphafsári 2022 var boðið upp á heimsþekktan ungverskan píanóleikara, Peter Toth, ásamt því að Andrew spilaði sjálfur.

Hátíðin í ár hefst 16. ágúst á Patreksfirði en meðal listamanna sem taka þátt í hátíðinni í ár verða Antoinette Perry frá Bandaríkjunum, hin íslenska Nína Margrét Grímsdóttir, M.H. Park frá Suður-Kóreu og William Wellborn frá Bandaríkunum.

Vestfjarðastofa óskar handhöfum viðurkenninganna innilega til hamingju.