Fara í efni

Fundað með efnahags- og viðskiptanefnd um hækkun fiskeldisgjalds

Fréttir

Stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og sviðsstjóri byggðamála áttu í dag fund með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis vegna fyrirhugaðrar hækkunar fiskeldisgjalds úr 3,5% í 5% sem fram kemur svokölluðum bandormi sem fylgir fjárlagafrumvarpi ársins 2023. Fundurinn stóð í 8 mínútur þar sem fulltrúar Vestfjarðastofu fóru  yfir sjónarmið varðandi hækkun gjaldsins og möguleg áhrif á uppbyggingu atvinnugreinarinnar, fyrirtækin og byggðirnar. 

Hækkun fiskeldisgjalds úr 3,5% í 5% kom inn sem nýtt atriði til umræðu án nokkurs fyrirvara eða beinnar umræðu. Skammur tími gefst því til að ræða forsendur þessara tillögu og líkleg áhrif á samfélag og þjónustugreinar til skemmri og lengri tíma litið. Hvergi í umræðu á meðal sveitarfélaga á Vestfjörðum hefur komið til tals að hækka beri fiskeldisgjald. Sveitarfélögin hafa fremur horft til þess að umræða um fyrirkomulag og markmiðssetning sé hluti stefnumótunarvinnu um málasviðið, sem matvælaráðherra setti af stað fyrr á þessu ári og sveitarfélögin hafa fagnað.  

Engin ágreiningur er um að greiða eigi afgjald af nýtingu takmarkaðrar auðlindar sem fiskeldissvæði í sjó eru. Rammi auðlindagjalda annars vegar og skiptingu þess á milli ríkis og sveitarfélaga (nærsamfélags) hinsvegar mál er varðar samfélög á Vestfjörðum mjög miklu. 

Í framsögum fjármála og efnahagsráðherra og matvælaráðherra um frumvarpið komu engar upplýsingar um tilgreind markmið. Vestfjarðarstofa hefur reynt án sérstakar niðurstöðu, að rýna stefnuskjöl stjórnvalda fyrir málasviðið, til að finna umfjöllun um samspil markmiðs um sjálfbæra nýtingu við stærð afgjalds af takmarkaðri auðlind. Eins hefur ekki skilað niðurstöðu að finna umfjöllun, hver eru hin samfélaglegu sjónarmið og hvernig þau hafa áhrif á nærsamfélagið og samfélagið á Íslandi í heild.

Gerð var fyrirspurn til Matvælaráðuneytis hvort og hvar megi finna mælikvarða markmið sem hér að framan eru tilgreind. Í svari ráðuneytisins kemur fram að ekki hafi verið unnir mælikvarðar á fyrir þessi markmið og markmiðin séu það almenn að ekki sé venja að setja á þau mælikvarða. Ráðuneytið vísar síðan til umfjöllunar um markmið og framtíðarsýn sem sett voru í fjármálaáætlun 2023 - 2027 fyrir málasvið 13, þess efnis að ákvarðanir um nýtingu auðlinda eigi að taka viðmið m.a. af hagsmunum heildarinnar í efnahagslegu tilviki. Eins verði að standa vörð um afkomu ríkissjóðs og endurheimta sjálfbærni ríkisfjármála í kjölfar heimsfaraldurs.

Vestfjarðastofa telur mál þetta mun sértækara en svo að beita eigi almennum viðmiðum á markmið fjármálaáætlunar. Hér hefur verið sköpuð veruleg óvissa um þróun fiskeldis í sjókvíum jafnt til skemmri tíma sem og lengri tíma litið og bein áhrif á samfélag og efnahagslíf á Vestfjörðum. Gjalda verður varhug að setja slík áform fram nema að undangenginni greiningu á líklegum áhrifum. Það er eindregin krafa að fá fram þessar upplýsingar þannig ræða megi forsendur þessa máls áður en ákvörðun er tekin.