Fara í efni

4. Haustþing Vestfirðinga 2019

Fréttir

Nú líður að Haustþingi 2019 sem haldið verður á Hólmavík og sem fyrr er dagskráin fjölbreytt og spennandi.
Þingið hefst föstudaginn 25. október og mun Haraldur Benediktsson fyrsti Þingmaður Norðvesturkjördæmis ávarpa þingið.
Sveitarfélögin og stjórn Fjórðungssambands Vestfjarða munu leggja fram ályktanir á þinginu sem teknar verða til afgreiðslu, en nú þegar hafa nokkur sveitarfélög lagt inn ályktanir.
Farið verður yfir fyrri vinnu varðandi sameiginlegt svæðisskipulag á Vestfjörðum og Þorgeir Pálsson sveitarstjóri Strandabyggðar mun kynna afrakstur  sameiginlegs Svæðisskipulags Stranda, Dala og Reykhóla.
Vinnustofunni “Sveitarstjórnarstigið- framtíðarsýn” verður stýrt af starfsfólki Vestfjarðastofu en þar gefst þinggestum kostur á að horfa inn í framtíðina og segja sína skoðun á sveitarfélagsskipulagi framtíðarinnar og samvinnu á Vestfjörðum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og  Aldís Hafsteinsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga munu koma á laugardeginum og ávarpa þingið. Sigurðu Ingi mun einnig opna „Umhverfislestina“ formlega í hádeginu en Umhverfislestin er farandsýning á vegum Vestfjarðastofu sem fjallar um umhverfismál heimilanna á fjölbreyttan, fræðandi og skemmtilegan hátt. Þar gefst fólki tækifæri til að fræðast um stöðu loftslagsmála og annarra umhverfismála og hvaða aðgerða er þörf til að bregðast við.  Þingið mun svo halda áfram og eru áætluð þingslit eru kl. 14:15.

Samkvæmt veðurspánni verður gott ferðaveður bæði föstudag og laugardag svo að flestir ættu að geta komið og notið þessa skemmtilega og áhugaverða þings um helgina.

Dagskrá og öll gögn fyrir þingið má finna á vef Vestfjarðastofu hér