Fara í efni

Fjórðungssambandið krefst flýtingar samgönguframkvæmda

Fréttir
Hættum að spóla
Hættum að spóla

Fjórðungssamband Vestfirðinga krefst þess í umsögn um þingsályktun um Samgönguáætlun 2019-2023 að framlög til verkefna á Vestfjörðum verði aukin um 12 milljarða króna, frá því sem lagt er til í áætluninni.

Í umsögn sambandsins er bent á að stærsta einstaka verkefnið er flýting á vegaframkvæmda um Dynjandisheiði og Bíldudalsveg, en áætlaður kostnaður er 9,7 milljarðar króna. Sú fjárhæð mun skila sér hratt vegna aukinna tekna ríkissjóðs af starfsemi í fiskeldi og ferðaþjónustu. Áætlaðar skatttekjur af fiskeldi í dag eru um 800 milljónir króna af um 15 þúsund tonna eldi.  Staðfest burðarþolsmat og mat á áhættu af erfðablöndun heimilar allt að 50 þúsund tonna eldi á svæðinu frá Patreksfirði að Dýrafirði, en áætlaðar skatttekjur af slíku eldi í heild sinni nema um 2,3 milljörðum króna. Nýr Hringvegur 2 um Vestfirði, mun síðan stórefla heilsársferðaþjónustu á Vestfjörðum og létta álagi af ferðamannasvæðum sem komin eru yfir þolmörk.

Fjórðungssamband Vestfirðinga lýsir síðan furðu á seinkun framkvæmda um Veiðileysuháls til ársins 2022 en framkvæmdina átti að bjóða út á árinu 2018 samkvæmt gildandi samgönguáætlun 2011-2022 og samgönguáætlun 2015-2018. Byggð í Árneshreppi er í stórhættu og aðgerðaleysi stjórnvalda er í raun ákvörðun um framtíð byggðarinnar.