Á dögunum fór fram 70. Fjórðungsþing Vestfirðinga og einnig er nú yfirstandandi 75. afmælisár Fjórðungssambands Vestfirðinga en það var stofnað í nóvembermánuði árið 1949. Í tilefni af þessum tímamótum var ákveðið að hressa upp á útlit sambandsins og ráðast í gerð nýs merkis fyrir það. Á Fjórðungsþinginu í Hnífsdal var nýja merkið afhjúpað og kynnt aðilum sambandsins.
Merkið er stílfærð útgáfa af því sem áður var, en það gamla sýndi allan Vestfjarðakjálkann með öllum sínum fjörðum og víkum sem getur verið erfitt viðureignar í því formi sem einkennismerki oft birtast.
Í nýja merkinu má sjá Vestfirði færða í stílinn, en einnig má sjá út úr því arnarhöfuð og örn að steypa sér niður, en líkt og flestir vita þá er höfuðbýli þessa konungs fuglanna á Íslandi á og við Vestfirði. Litur merkisins tók einnig nokkrum breytingum úr fölum blágrænum í dimmblágrænan, var hann valinn með gamla litinn til hliðsjónar en jafnframt út frá því að hann væri ekki með pólitíska skírskotun í hugum fólks.
Hönnuður nýja merkisins er Haraldur Sigurðarson hjá Cohn og Wolfe.