Fara í efni

Fiskeldismenntun í Noregi

Þann 12. september lögðu tveir starfsmenn Vestfjarðastofu ásamt Fræðslumiðstöð Vestfjarða í leiðangur til Noregs til að kynna sér uppbyggingu menntunar í fiskeldi.

Til að byggja upp nýja atvinnugrein þarf að byggja upp alla þætti þar á meðal menntun í greininni. Fiskeldið hófst í Noregi í kringum 1970 og í upphafi voru uppi efasemdir um að það væru nógu margir sem hefðu áhuga á náminu og það væri dýrt að byggja upp nám fyrir örfáa.

Við heimsóttum menntaskólann Guri Kunna sem er staðsettur í Frøya sem var stofnaður 1984 en hafði verið í mikilli lægð en árið 2014 var svo byggður glæsilegur menntaskóli í samstarfi fyrirtækjanna, sveitarfélagsins og fylkisins. Síðastliðinn áratug hefur orðið alger viðsnúningur varðandi áhuga ungs fólks á menntun í fiskeldi og er nú eftirspurnin orðin meiri en framboð af menntun í skólanum sem er á tveimur stöðum. Á eyjunni Frøya er lögð áhersla á verknám og fiskeldisnám en á eyjunni Hitra eru kenndar hefðbundnar bóklegar greinar.

Við hliðina á skólanum hefur verið byggt upp þróunarsetur með áherslu á sjávarútveg og fiskeldi ”Blue Compitence Center” eða ”Hæfnimiðstöð sjávarinns” þar sem fyrirtæki og stofnanir hafa komið sér fyrir á einum stað við almennan rekstur, rannsóknir og þróun.

Þessi frábæra aðstaða og þekking sem hefur byggst upp á svæðinu dregur nú að sér nemendur á öllum skólastigum í Noregi sem vilja koma og kynna sér fiskeldið. Hvað varðar rannsóknir og þróun þá fara þarna nýjustu straumar og stefnur í gegnum nærsamfélagið og efla þannig atvinnulífið á svæðinu með bestu mögulegu þekkingu hverju sinni.

Vel var tekið á móti okkur en Fræðslumiðstöð Vestfjarða er þáttakandi í Evrópuverkefninu ”Blue Mentor” og ferðin var liður í því verkefni sem lítur að því að samræma og efla menntun í fiskeldi í Evrópu.