Fara í efni

Kynningarfundur á verkefninu Brothættar byggðir í Strandabyggð

Fréttir

Rafrænn kynningarfundur á verkefninu Brothættar byggðir í Strandabyggð verður haldinn miðvikudaginn 29. apríl kl. 15:00. Á fundinum verður verkefnið Brothættar byggðir í Strandabyggð kynnt og einnig söfnun hugmynda um Öndvegisverkefni fyrir fjárfestingarátak í Brothættum byggðum. Fundurinn verður haldinn í netfundaforritinu Zoom og auk kynninga verður þátttakendum gefinn kostur á að leggja fram spurningar. Hlekkur til að tengjast netfundinum verður birtur á heimasíðu Strandabyggðar og á viðburðinum samdægurs.

Alþingi samþykkti í síðasta mánuði að efla verkefnið Brothættar byggðir með 100 mkr framlagi, sem hluta af verkefnum til að mæta heimsfaraldri kórónuveiru. 
Ákveðið hefur verið að nýta þetta viðbótarfjármagn til að efna til sérstaks fjárfestingarátaks í Brothættum byggðum. Fjármagnið skiptist í tvo hluta, Frumkvæðissjóð og Öndvegissjóð. Í Frumkvæðissjóði verður fjárhæð sem skiptist jafnt á milli þeirra sjö byggðarlaga sem eru þátttakendur í verkefninu Brothættar byggðir. Í Öndvegissjóði verður sett fjárhæð í samkeppnissjóð sem verkefni úr byggðarlögunum sjö keppa um.

Verkefnisstjórn fyrir Strandabyggð hefur ákveðið að þeim fjármunum sem ráðstafað er til Frumkvæðissjóðs verði úthlutað, ásamt árlegu styrkfé verkefnisins, eftir að íbúaþing hefur farið fram í Strandabyggð og í samræmi við þær áherslur sem íbúaþingið setur.

Fyrir Öndvegissjóðinn vill verkefnastjórn hins vegar auglýsa eftir hugmyndum að verkefnum til eflingar atvinnu- og menningarlífi sem hægt sé að ráðast í hratt og örugglega. Öndvegissjóðurinn er sameiginlegur fyrir öll þátttökubyggðarlögin sjö og gefst að hámarki tveimur verkefnum úr hverju byggðarlagi kostur á að senda inn umsókn að undangengnu vali verkefnisstjórnar á verkefnum í þennan pott. 

Verkefnisstjórn Brothættra byggða í Strandabyggð  hefur kallað eftir hugmyndum að verkefnum frá samfélaginu í Strandabyggð til að beina í Öndvegissjóð. Allar hugmyndir sem líta að uppbyggingu atvinnulífs í Strandabyggð eru vel þegnar og er vert að taka fram að þær hugmyndir sem ekki verða valdar til umsóknar í Öndvegissjóðinn geta sótt í Frumkvæðissjóðinn sem auglýstur verður skömmu eftir íbúaþingið. 

Hugmyndir um öndvegisverkefni skulu sendar ti verkefnisstjórnar í gegnum rafrænt form í síðasta lagi 10. maí 2020. Ekki er tekið við hugmyndum eftir öðrum leiðum eða eftir þann tíma. Hægt er að hafa samband við stafsfólk Vestfjarðastofu eða fulltrúa í verkefnastjórn ef þörf er á aðstoð eða upplýsingar

íbúar Strandabyggðar eru hvattir til að senda inn hugmyndir og stuðla þannig að kröftugri byrjun sveitarfélagsins í Brothættum byggðum og enn sterkari Strandabyggð.