Fara í efni

Endurskoðun Vestfjarða

Fréttir

Endurskoðun Vestfjarða ehf. var eitt af átta fyrirtækjum á Vestfjörðum sem fékk í vetur viðurkenningu Creditinfo sem framúrskarandi fyrirtæki. Endurskoðun Vestfjarða ehf. var stofnað árið 2004 í Bolungarvík. Fyrirtækið hafði frá árinu 1990 verið starfandi undir nafninu Löggiltir Endurskoðendur Vestfjörðum ehf. með starfsstöðvar í Bolungarvík, Ísafirði og á Hólmavík. Árið 2004 skiptust Löggiltir endurskoðendur Vestfjörðum ehf. upp í tvö fyrirtæki, annað hélt áfram undir sama nafni með starfsstöð á Ísafirði og hitt er Endurskoðun Vestfjarða í Bolungarvík.

 

Þann 1. desember 2009 keypti Endurskoðun Vestfjarða rekstur Löggiltra endurskoðenda Vestfjörðum á Ísafirði og rekur nú þessar tvær endurskoðunarskrifstofur undir heitinu Endurskoðun Vestfjarða ehf. með starfsstöðvar í Bolungarvík og á Ísafirði. Alls starfa 14 starfsmenn hjá félaginu, 8 í Bolungarvík og 6 á Ísafirði.

 

Eigendur Endurskoðunar Vestfjarða ehf. eru fjórir, þar af eitt endurskoðunarfyrirtæki og einn löggiltur endurskoðandi og starfar hann hjá félaginu. Eigendur félagsins eru: Jón Þorgeir Einarsson, Elín Jónína Jónsdóttir, Deloitte ehf. og Vestur ehf.

Deloitte ehf., sem er eitt af fremstu fyrirtækjum í heimi á sviði endurskoðunar og ráðgjafar, gerðist hluthafi í Endurskoðun Vestfjarða í ársbyrjun 2010 og eru þau í nánu samstarfi. Samstarfið felst meðal annars í því að fá afnot af ýmsum hugbúnaði, svo sem uppgjörs- og endurskoðunarkerfi ásamt aðgangi að sérfræðingum og fræðslustarfi. Endurskoðun Vestfjarða útvistar nokkrum verkefnum til Deloitte en það eru í flestum tilvikum sérhæfð verkefni.

 

Vestfjarðastofa óskar þeim innilega til hamingju með viðurkenninguna.