Fara í efni

Breskir blaðamenn ferðast Vestfjarðaleiðina

Fréttir

Um mánaðarmótin tók Markaðsstofa Vestfjarða á móti fjórum breskum blaðamönnum og fulltrúa almannatengslaskrifstofu Íslandsstofu og ferðaðist með þá Vestfjarðaleiðina. Um var að ræða fimm daga blaðamannaferð sem hófst með ferðalagi til Patreksfjarðar, þar sem gist var fyrstu nóttina. Næsti dagur var meðal annars nýttur til að skoða Rauðasand, minjasafn Egils Ólafssonar, náttúrulaugina í Reykjafirði og Dynjanda. Því næst var haldið til Ísafjarðar, en þaðan var farið í ATV fjórhjólaferð, nýji útsýnispallurinn á Bolafjalli heimsóttur og kíkt við á Dokkuna brugghús. Næst var haldið inn Ísafjarðardjúpið með heimsókn til Stellu í Heydal, þar sem blaðamennirnir nýttu tækifærið og bleyttu sundfötin aftur. Svo var haldið til Hólmavíkur þar sem farið var á Galdrasýninguna, var síðan gist á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Síðasta dag ferðarinnar var keyrt til Keflavíkur en á leiðinni var komið við á Eiríksstöðum þar sem hópurinn fékk innsýn í líf á landnámstíma.


Sérstaklega er gaman að segja frá því að hópurinn hafði orð á því hvað maturinn á Vestfjarðaleiðinni væri einstaklega ferskur og góður, var þar alveg sama hvort það var fiskisúpa, súkkulaði, bjór eða lamb.
Ferðin var einstaklega vel heppnuð þótt veðurguðirnir hafi ekki alltaf leikið við hópinn, en spennandi verður að sjá þá umfjöllun sem mun birtast í framhaldi þessarar ferðar.