Fara í efni

Barnamenningarsjóður veitti Púkanum veglegan styrk

Fréttir
Bára Melsted tók við styrknum f.h. Goðdala og Skúli Gautason f.h. Púkans. Ljósmynd: Jón Víðir Haukss…
Bára Melsted tók við styrknum f.h. Goðdala og Skúli Gautason f.h. Púkans. Ljósmynd: Jón Víðir Hauksson

Barnamenningarsjóður hélt sína árlegu styrkúthlutun á Degi barnsins þann 26. maí síðastliðinn. Þar voru fjögur vestfirsk verkefni styrkt. Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða, fékk annan hæsta styrkinn eða 6 milljónir króna til að halda hátíðina á næsta ári. Verður hún haldin í þriðja sinn dagana 31. mars-11.apríl.

Hæsta styrkinn að upphæð 11,6 milljónir króna fékk samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Akureyrarbæjar og Ísafjarðarbæjar sem kallast Leikskólaverkefnið. Í því felst samstarf leik- og tónlistarskóla þar sem söngur, tónlistararfur, hljóðfæraleikur og samsköpun barna er nýttur inn í alla þætti kennslu í leikskólastarfi með áherslu á sköpun, málskilning og orðaforða. Nemendur í tónlistarskóla vinna með elstu börnum leikskóla sem lýkur með sameiginlegum lokatónleikum í menningarhúsi.

Grunnskólinn á Drangsnesi fékk 1.620.000 styrk til verkefnisins Goðdalir, sviðslistasmiðja barna sem verður unnið í samstarfi við Leikfélag Hólmavíkur, Grunnskóla Hólmavíkur og Árnastofnun. Það er þverfagleg listsmiðja sem spannar heilt skólaár í samstarfi við fagfólk og listamenn. Í verkefninu sem byggir á norrænni goðafræði er unnið þvert á listgreinar; leiklist, myndlist, hönnun og handverk, ritlist, söngur og dans er samþætt í eina heild. Verkið verður sýnt á Ströndum í lok apríl.

Kol og salt á Ísafirði fékk 800.000 kr. styrk til verkefnisins Furðuverur í myrkrinu sem verður unnið í samstarfi við leik- og grunnskóla Ísafjarðarbæjar. Það snýst um að bjóða börnum á aldrinum 4-8 ára fræðast um furðuverur í þjóðsögum og munnmælum, bæði íslenskum og frá þeim löndum sem börn af erlendum uppruna koma frá, og gera af þeim myndir sem eru sameinaðar í myndbönd/hreyfimyndir. Hreyfimyndunum verður varpað á glugga og veggi í opinberu rými víðsvegar um bæjarfélagið á dimmasta tíma ársins.

Hlutverk Barnamenningarsjóðs er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi. Þessar styrkveitingarnar eru glæsileg innspýting í menningarlíf vestfirskra barna og útlit fyrir að 2025 verði blómlegt.