Fara í efni

Auglýst er eftir umsóknum um styrki til verkefna í tengslum við verkefnið Sterkar Strandir

Fréttir

Í júní 2020 var haldið íbúaþing þar sem íbúar voru kallaðir saman í tveggja daga vinnubúðir. Þinginu var stýrt af Sigurborgu Kr. Hannesdóttur hjá ráðgjafafyrirtækinu Ildi. Í framhaldinu vann verkefnisstjórn stöðugreiningu á svæðinu þar sem tekið var tillit til íbúaþróunar, atvinnuþátta og -þróunar, auk sérstöðu landshlutans. Niðurstöður íbúaþings, fyrrnefnd stöðugreining og aðrar skýrslur sem lágu fyrir um svæðið voru notaðar til að móta framtíðarsýn og markmið sem lögð verða fyrir íbúa til samþykktar.

Um er að ræða fyrstu úthlutun í verkefninu en verkefnið er hluti af byggðaþróunarverkefninu Brothættar byggðir. Umsóknarfrestur er til kl 12 á hádegi 24. júlí 2020. Hægt er að sækja um styrki á vef Vestfjarðastofu, hér

Alþingi ákvað að veita auknu fjármagni til verkefna á vegum Brothættra byggða og því eru til ráðstöfunar 13,7 m. kr. í þessari úthlutun. Verkefni sem verða styrkt að þessu sinni og hljóta styrk úr aukaframlagi Alþingis til Brothættra byggða á þessu ári þurfa að vera hafin í síðasta lagi 1. september 2020 og lokið eigi síðar en 1. apríl 2021 og eru umsækjendur beðnir um að hafa það að leiðarljósi við gerð umsókna.

Meginmarkmið verkefnisins Sterkar Strandir eru eftirfarandi:

• Sterkir innviðir og öflug þjónusta
• Stígandi í atvinnulífi
• Stolt og sjálfbært samfélag

Væntanlegar umsóknir þurfa að taka mið af þessum markmiðum.

Á vef Byggðastofnunar eru nánari reglur um styrkveitingar, markmiðaskjal verkefnisins. Athugið að ekki er krafist mótframlags frá umsækjanda. Það styrkir umsókn ef verkefnið laðar fram fjármuni og krafta aðstandenda verkefnisins og samstarfsaðila. Samstarf aðila sem að jafnaði starfa ekki saman styrkir umsóknina. Umsækjendur er hvattir til að lesa ofangreindar leiðbeiningar og leita sér aðstoðar hjá verkefnisstjóra. Vönduð umsókn sem styður við framtíðarsýn og meginmarkmið verkefnisins er líklegri til árangurs.

Nauðsynlegt ítarefni til aflestrar fyrir umsækjendur: Framtíðarsýn og markmið og Samantekt íbúaþings.

Nánari upplýsingar og ráðgjöf veitir Sigurður Líndal verkefnisstjóri í síma 661- 4698 eða á netfanginu sigurdurl@vestfirdir.is