Fara í efni

Arnarlax auglýsir 37 laus störf

Fréttir
Mynd - Arnarlax
Mynd - Arnarlax

Um helgina auglýsti Arnarlax 37 störf hjá fyrirtækinu laus til umsóknar. Höfuðstöðvar Arnarlax er á Bíldudal en störfin eru flest á Vestfjörðum eða 31 í sveitafélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði. Má segja að líklega er um að ræða mestu fjölgun atvinnutækifæra á Vestfjörðum í áratugi. Óskað er eftir fólki í fjölbreytt sérfræðistörf, allt frá eldisbændum til mannauðsstjóra.

Starfsemi Arnarlax hefur vaxið mikið síðustu ár, en eins og kom fram í síðasta ársfjórðungsuppgjöri þá námu tekjur fyrirtækisins um 5 milljörðum íslenskra króna á tímabilinu október til desember 2021. Þessi mikli vöxtur kallar á ráðningu fleira fólks á öllum sviðum fyrirtækisins en flest störfin sem Arnarlax auglýsir um helgina eru sérfræðistörf og öll bjóða þau upp á góða tekjumöguleika.

Kjartan Ólafsson stjórnarformaður Arnarlax sagði í fréttatilkynningu að hann sé mjög stoltur af þessum mikla fjölda verðmætra starfa sem fiskeldið er að skapa á Íslandi. Kjartan talaði einnig um að vandinn sem Arnarlax stendur helst frammi fyrir og er í raun lúxusvandi, snúi að því að skapa nýju starfsfólki og fjölskyldum þeirra sem bestar aðstæður hvað varðar húsnæði og þjónustu. Kjartan segir að ætlunin sé að vinna að þeim málum í samvinnu við sveitarfélögin og nærsamfélagið.

Hér er hægt að kynna sér störfin - Arnarlax