Fara í efni

Ályktun um orkumál

Fréttir Umsagnir
Þingeyri við Dýrafjörð
Þingeyri við Dýrafjörð

Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfirðinga hafa í umsögnum, um drög að breytingum á raforkulögum og þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, (Rammaáætlun 3), skorað á ríki og Alþingi að standa við þá mörkuðu stefnu sömu aðila, að orkumál á Vestfjörðum séu í forgangi, umfram aðra landshluta. 

 Landshlutinn hefur um áratuga skeið staðið mun lakar í orkumálum með neikvæðum áhrifum á þróun samfélags og atvinnulífs. Allar ákvarðanir ríkis og Alþingis verða því að vinna að því markmiði, að gera landshlutann samkeppnishæfan í afhendingu raforku og jafna aðstöðumun íbúa og fyrirtækja í orkukostnaði.   

Stjórn Vestfjarðarstofu hafnar því tillögu um sameiningu dreifiveitna Orkubús Vestfjarða og Rarik, sem settar hafa verið fram í Samráðsgátt stjórnvalda (mál 32/2021) um breytingar á raforkulögum. Orkubú Vestfjarða er lykilaðili í framleiðslu og dreifingu orku á Vestfjörðum, samtímis sem fyrirtækið er stór atvinnurekandi í vestfirsku samhengi. Röskun á starfsemi Orkubúsins mun að mati Vestfjarðastofu, skaða stöðu samfélaga og atvinnulífs og ganga gegn markmiðum um að setja Vestfirði í forgang í orkumálum. 

Ein flutningslína, Vesturlína, tengir Vestfirði við raforkukerfi landsins. Að óbreyttu þá er afhendingaröryggi raforku á Vestfjörðum ekki tryggt, nema með orkuframleiðslu innan landshlutans sem annar núverandi orkuþörf og til framtíðar litið. Stjórn Vestfjarðastofu hvetur því Alþingi að samþykkja stefnu sem sett er fram í Rammaáætlun 3, sem felur í sér að Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun eru í nýtingarflokki. Taki Alþingi þá ákvörðun að færa þá virkjanakosti í biðflokk eða verndarflokk, þá fellur um sjálft sig öll stefnumörkun um að setja Vestfirði í forgang í orkumálum.  Engir aðrir virkjanamöguleikar af sömu stærðargráðu eru innan seilingar og við það er ekki búið nema að þeirri ákvörðun verði svarað samtímis með tvöföldun Vesturlínu.