Fara í efni

Ályktað var á 4. haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga

Vel var tekið á móti gestum á haustþingi Fjórðungssambandsins á Hólmavík en undirtónar þessa þings voru samgöngur og sameiningar.  Það var samdóma álit fundarmanna að án samgöngubóta á Vestfjörðum væri ekki tímabært að ræða sameiningar.

Samþykktar voru ályktanir  m.a um lögþvingaðar sameiningar sveitarfélaga þar sem þingið hafnaði alfarið að ríkið beiti slíkum aðferðum en einnig um aukið samstarf sveitarfélaga til hagsbóta fyrir íbúana.

Nú sem fyrr ályktaði þingið um samgöngumál sem brýnt er að færa til betri vegar ef hugað er að atvinnusóknarsvæðum og sameiningum sveitarfélaga. Þær vegaframkvæmdir sem þola enga bið eru Dynjandisheiði, Bíldudalsvegur, Innstrandarvegur og Veiðileysuháls. Aukinn þungi er á kröfur um jarðgangnagerð á Vestfjörðum milli atvinnusóknarsvæða, jarðgöng milli búsetusvæða innan Vesturbyggðar, breikkun Vestfjarðagangna, Súðavíkurgöng og göng undir Klettsháls.

Fjöldi fundarmanna fóru í ræðupúlt og lýstu sérstökum stuðningi við að vegframkvæmdir hæfust yfir Veiðileysuháls á Ströndum og hvöttu samgönguráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson til að endurskoða þá ákvörðun að fresta þeirri framkvæmd sem er grundvöllur áframhaldandi byggðar í Árneshreppi.

Lýst var áhyggjum að framlög til vegaþjónustu eru ekki að mæta aukinni umferð og ekki er mætt uppsöfnuðum halla á vetrarþjónustu í frumvarpi til fjárlaga 2020.

Einnig var ályktað um sjúkraflug en þar hefur þjónustan verið að minnka á síðastliðnum árum.

Þingið vill hvetja stjórnvöld til að endurskoða 30% niðurskurð á ýsukvóta þar sem ýsugengd hefur verið mikil á grunnslóð og of lítill ýsukvóti hamlar þorskveiðum.

Haustþingið hvetur stjórnvöld til þess að hefja vinnu við mótun langímaorkustefnu fyrir Ísland, en þingið telur að stefnuleysi standi þróun á Vestfjörðum fyrir þrifum.

Þingið var vel sótt og mikill samhugur sveitarstjórnarmanna er um sameiginleg málefni Vestfirðinga.

Sigurður Ingi Jóhannsson opnaði einnig sýninguna Umhverfislestina sem er bráðskemmtileg sýning sem setur umhverfismálin í skýrt samhengi fyrir alla.  Umhverfislestin verður sýnd á Patreksfirði í FHP fimmtudaginn 31. okt kl. 17:00-20:00 og á Ísafirði í Edinborgarhúsinu laugardaginn 2. nóv 2019 kl. 13:00-17:00.

Allar ályktanir þingsins má finna hér.