Fara í efni

Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar

Eliza Reed, forsetafrú veitti verðlaunin. 
Eliza Reed, forsetafrú veitti verðlaunin. 

Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum (International Westfjords Piano Festival) hlaut hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar í ár. Hátíðin verður haldin á Patreksfirði í annað sinn 16. ágúst. Forsprakki hátíðarinnar er píanóleikarinn Andrew Yang sem hefur verið búsettur á Patreksfirði að undanförnu. Hátíðin var haldin í fyrsta sinn í fyrra og þótti einstaklega vel heppnuð. Eliza Reed, forsetafrú veitti verðlaunin. 

Eyrarrósin er veitt annað hvert ár til listverkefna sem þykja sérstaklega metnaðarfull, hafa listrænan slagkraft og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Aðalverðlaun Eyrarrósarinnar í ár hlaut menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði með Aðalheiði Eysteinsdóttur í broddi fylkingar. Aðrir sem hlutu hvatningarverðlaun voru Hnoðri í norðri, Akureyri og Raddir úr Rangárþingi, Hellu. Að verðlaununum standa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Icelandair.

International Westfjords Piano Festival byggir, eins og nafnið gefur til kynna, á píanóleik í hæsta gæðaflokki. Meðal alþjóðlegra listamanna sem taka þátt í hátíðinni í ár verða Antoinette Perry frá Bandaríkjunum, hin íslenska Nína Margrét Grímsdóttir, M.H. Park frá Suður-Kóreu og William Wellborn frá Bandaríkunum. Hátíðin hefst 16. ágúst á Patreksfirði. 

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.