Fara í efni

Af Lagarlífi

Fréttir

Dagana 12. og 13. október s.l. fór Lagarlíf fram á Grand hótel í Reykjavík, en það er ráðstefna eldis- og ræktunargreina á Íslandi. Ráðstefnan hefur verið haldin um nokkurt skeið en hefur nú tekið á sig alþjóðlegan svip og er einnig undir formerkjum Aqua Ice, eða Aquaculture Confrence Iceland. Ráðstefnuna sótti fjöldi gesta, bæði innlendra og erlendra, og kynnti eða kynnti sér allt það helsta sem er að eiga sér stað í eldi og ræktun sjávarfangs. Þau Guðrún Anna Finnbogadóttir og Magnús Bjarnason sóttu ráðstefnuna fyrir hönd Vestfjarðastofu.

Norðurlandaþjóðirnar voru áberandi á ráðstefnunni, en fiskeldi er mikilvæg atvinnugrein bæði í Noregi og Færeyjum og var heil málstofa tileinkuð viðfangsefninu áskoranir og nýsköpun í færeysku eldi og segir Guðrún Anna frændur okkar í Færeyjum mjög framarlega í greininni og hafa náð góðum tökum á áskorunum innan hennar eftir áföll í henni á fyrri stigum. Á málstofunni lögðu þeir áherslu á umfjöllun um lausnir við lús, sjálfbærar aðferðir við eldið og nýjar tæknilausnir.

Upp á síðkastið má segja að öll spjót hafi staðið að fiskeldi í sjó og var ein málstofa tekin undir landeldi sem miklar vonir eru bundnar við sem nýja stoð í íslensku atvinnulífi. Þá er þörungarækt annað sem mikið hefur verið rætt og ljóst er að mikil tækifæri eru í þeirri tegund lagarræktunar. Þó eru enn áskoranir sem þararækt stendur frammi fyrir, líkt og skortur á lagaumhverfi og líffræðilegar takmarkanir varðandi joð, kadmíum og arsenik. Verið er að móta reglugerðarramma og í þeirri vinnu sem snýr að þörungarækt í sjó horfir MAST til Matvælaöryggisstofnunar Evrópu.

Í málstofu um ný innihaldsefni í laxafóðri mátti heyra að gríðarmikil þróun er að eiga sér stað á því sviði og mikið vísindastarf sem fer fram við að þróa hina fullkomnu blöndu. Laxfiskur er í flokki hollra matvæla, með lágt kolefnisspor og þykir því heppilegur próteingjafi þegar brauðfæða skal heiminn. Því er brýnt að finna heppileg próteinrík grunnefni í fóðurgerðina og þar er verið að vinna með t.d. lirfur og þörunga til að svara þeim þörfum.

Framtíðarþróun í fiskeldi var eitt af viðfangsefnunum á Lagarlífi. Þar var meðal annars farið í framtíðarsýn varðandi úthafseldi, stöðu rannsókna á ræktun kynlausra laxa til að koma í veg fyrir erfðablöndun og framleiðslu örþörunga, sem meðal annars er fært að skapa lífrænt litarefni í stað tilbúins litarefnis.

Á ráðstefnunni mátti heyra mikla áherslu á sjálfbærar lausnir til að spara orku og aðrar auðlindir við framleiðslu á eldisafurðum. Þar var ofarlega rafvæðing skipa og búnaðar sem mikil framþróun hefur orðið í undanfarin misseri. Þar hefur Ísland, þrátt fyrir smæðina, virkilega tekið við sér og er á hraðri leið til rafvæðingar.

Skýrsla Matvælaráðuneytisins um framtíðarsýn í fiskeldi og var rædd frá mörgum hliðum í lokamálstofunni. Horft er til lagareldis sem mögulegrar fjórðu stoðar í atvinnulífi Íslands og fjallað var um þá stefnumótunarvinnu sem unnin hefur verið, þar sem er horft er til reynslu nágrannaríkjanna Færeyja og Noregs við skipulagningu sjókvíaleldis á Íslandi. Það er ljóst að innan greinarinnar eru ýmsar áskoranir, en þar er líka fjöldi tækifæri.

Fyrir Vestfjarðastofu er það mikilvægt að heyra og sjá það sem er að gerast í þessari mikilvægu grein sem lagareldi er fyrir Vestfirði. Einnig að hitta þá sem starfa í greininni og heyra þeirra sjónarmið varðandi þróun innan hennar og möguleika til framtíðar.