Í byrjun mars hélt fríður flokkur Vestfirðinga til eyjunnar Samsö í Danmörku, sem hefur getið sér gott orð fyrir góðan árangur í loftslagsmálum. Verkefnastjórn RECET (Rural Europe for Clean Energy Transition) sem Vestfjarðastofa er aðili að bauð til ferðarinnar. Auk starfsfólks Vestfjarðastofu fór í ferðina sveitarstjórnarfólk á Vestfjörðum frá sveitarfélögum sem taka þátt í RECET.
Heimsóknin hafði það að markmiði að kynna aðferðafræðina sem íbúar og sveitarstjórn Samsö studdist við á leið sinni að kolefnishlutleysi, sem þau náðu þegar árið 2007. Samsö á sér að mörgu leyti svipaða samtímasögu og Vestfirðir, þar sem þau hafa tekist á við hnignun atvinnuvega, fólksfækkun og hækkandi aldur íbúa. Auk þess er Samsö af svipaðri stærð og sveitarfélagið Ísafjarðarbær og því rekstur þeirra að mörgu leyti sambærilegur.
Meðal þess sem gestirnir, sem komu auk Íslands frá Slóveníu, Svíþjóð og Spáni, fengu að kynnast í Samsö voru vindmyllur, rafhleðslukerfi í höfnum og hálmdrifnar hitaveitur. Aðalatriðið var þó að heyra frá starfsfólki Energi Akademiet, hvernig aðferðafræði íbúalýðræðis og þátttöku var beitt til þess að ná sátt um aðgerðir, sem fyrir fram voru nokkuð umdeildar. Lokamarkmið RECET-verkefnisins er að á Vestfjörðum verði til loftslags- og orkuskiptaáætlanir. Einnig að þær verði virkt verkfæri til að ná loftslagsmarkmiðum og orkuskiptum sveitarfélaganna og var þessi heimsókn því um margt gagnleg fyrir gestina, sem meðal annars fengu að spreyta sig á gerð slíkra áætlana með Samsö-aðferðunum.
Í ferðina fóru Nanný Arna Guðmundsdóttir frá Ísafjarðarbæ, Magnús Ingi Jónsson frá Bolungarvíkurkaupstað, Jóhanna Ösp Einarsdóttir og Kjartan Þór Ragnarsson frá Reykhólahrepp og Gerður Björk Sveinsdóttir frá Vesturbyggð, auk starfsmanna Vestfjarðastofu Magnúsi Þór Bjarnasyni, Guðrúnu Önnu Finnbogadóttur og Hjörleifi Finnssyni.